Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/38
Jómsvíkingar héldu liði sínu til Limafjarðar og sigldu þaðan út á hafið og höfðu sex tigu skipa og koma að Ögðum, halda þegar liðinu norður á Rogaland, taka þá að herja þegar er þeir koma í ríki Hákonar jarls og fara svo norður með landi og allt herskildi.
Geirmundur er sá maður nefndur er fór með hleypiskútu eina og nokkurir menn með honum. Hann kom fram norður á Mæri og fann þar Hákon jarl, gekk inn fyrir borð og sagði jarli tíðindi, að her var suður í landi kominn af Danmörku. Jarl spurði ef hann vissi sannindi á því. Geirmundur brá upp hendinni annarri og var þar af höggvinn hreifinn, segir að þar voru jartegnir að her var í landinu. Síðan spyr jarl innilega að um her þenna.
Geirmundur segir að þar voru Jómsvíkingar og höfðu drepið marga menn og víða rænt: „Fara þeir þó,“ segir hann, „skjótt og ákaflega. Vænti eg að eigi muni áður langt líða en þeir muni hér niður koma.“
Síðan reri jarl alla fjörðu inn með öðru landi en út með öðru, fór dag og nótt og hafði njósn hið efra um Eið, svo suður í Fjörðu, svo og norður þar er Eiríkur fór með herinn.
Þess getur í Eiríksdrápu:
- Setti jarl sá er atti
- ógnfróðr á lög stóði
- hrefnis háva stafna
- hót Sigvalda að móti.
- Margr skalf hlumr, en hvergi
- huggendr bana uggðu,
- þeir er gátu sjá slíta,
- sárgams, blöðum ára.
Fór Eiríkur jarl með herinn norðan sem snúðulegast.