Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/64

Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar
Höfundur: Snorri Sturluson
64. Frá Ólafi konungi og vélum Óðins

Svo er sagt þá er Ólafur konungur var á veislunni á Ögvaldsnesi að þar kom eitt kveld maður gamall og orðspakur mjög, hafði hött síðan. Hann var einsýnn. Kunni sá maður segja af öllum löndum. Hann kom sér í tal við konung. Þótti konungi gaman mikið að ræðum hans og spurði hann margra hluta en gesturinn fékk úrlausn til allra spurninga og sat konungur lengi um kveldið. Þá spyr konungur ef hann vissi hver Ögvaldur hefði verið er nesið og bærinn var við kenndur.

Gesturinn segir að Ögvaldur var konungur og hermaður mikill og blét kú eina mest og hafði hann hana með sér hvargi er hann fór og þótti honum það heilnæmlegt að drekka jafnan mjólk hennar: „Ögvaldur konungur barðist við konung þann er Varinn hét. Í þeirri orustu féll Ögvaldur konungur. Var hann þá hér heygður skammt frá bænum og settir upp bautasteinar þeir er hér standa enn. En í annan stað skammt héðan var heygð kýrin.“

Slíka hluti sagði hann og marga aðra frá konungum eða öðrum fornum tíðindum. En er lengi var setið um nóttina þá minnti biskup konung á að mál væri að ganga að sofa. Gerði konungur þá svo. En er hann var afklæddur og hafði í rekkju lagst þá settist gesturinn á fótskörina og talaði enn lengi við konung. Þótti konungi orðs vant er annað var mælt. Þá mælti biskup til konungs, segir að mál væri að sofa. Gerði konungur þá svo en gesturinn gekk út. Litlu síðar vaknaði konungur og spurði þá eftir gestinum og bað hann kalla til sín en gestur fannst þá hvergi.

Eftir um morguninn lét konungur kalla til sín steikara og þann er drykkinn varðveitti og spyr ef nokkur ókunnur maður hefði komið til þeirra. Þeir segja að þá er þeir skyldu matbúa kom þar maður nokkur og sagði að furðu ill slátur suðu þeir til konungsborðs. Síðan fékk hann þeim tvær nautsíður digrar og feitar og suðu þeir þær með öðru slátri. Þá segir konungur að þá vist alla skyldi ónýta, segir að þetta mundi engi maður verið hafa og þar mundi verið hafa Óðinn sá er heiðnir menn höfðu lengi á trúað, sagði að Óðinn skyldi þá engu áleiðis koma að svíkja þá.