Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/65

Ólafur konungur dró saman lið mikið austan úr landi um sumarið og hélt liði því norður til Þrándheims og lagði fyrst inn til Niðaróss. Síðan lét hann fara þingboð um allan fjörðinn og stefndi átta fylkna þing á Frostu en bændur sneru þingboðinu í herör og stefndu saman þegn og þræl um allan Þrándheim. En er konungur kom til þings þá var kominn bóndamúgurinn með alvæpni. En er þing var sett þá talaði konungur fyrir lýðnum og bauð þeim að taka við kristni.

En er hann hafði litla hríð talað þá kölluðu bændur og báðu hann þegja, segja að ella mundu þeir veita honum atgöngu og reka hann í brott. „Gerðum vér svo,“ sögðu þeir, „við Hákon Aðalsteinsfóstra þá er hann bauð oss þvílík boð og virðum vér þig eigi meira en hann.“

En er Ólafur konungur sá æði búendanna og það með að þeir höfðu her svo mikinn að eigi mátti við standa, þá veik hann ræðunni og sneri til samþykkis við bændur, segir svo: „Eg vil að vér gerum sætt vora svo sem vér höfum áður lagt með oss. Vil eg fara þar til er þér hafið hið mesta blót yðar og sjá þar siðu yðra. Tökum þá ráð vort um siðu, hverja vér viljum hafa, og samþykkjum þá það allir.“

En er konungur talaði linlega til bónda þá mýktust hugir þeirra og fór síðan allt talið líklega og sáttgjarnlega og var það ráðið að lyktum að vera skyldi miðsumarsblót inni á Mærini og skyldu þar til koma allir höfðingjar og ríkir bændur svo sem siður var til. Þar skyldi og koma Ólafur konungur.