Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/79

Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar
Höfundur: Snorri Sturluson
79. Ferð Ólafs konungs til Goðeyja

Ólafur konungur hélt liði sínu norður með landi og kristnaði allt fólk þar sem hann fór. En er hann kom norður að Salpti ætlaði hann að fara inn í fjörðinn og finna Rauð en hregg veðurs og stakastormur lá innan eftir firðinum og lá konungur þar til viku og hélst hið sama hreggviðri innan eftir firði en hið ytra var blásandi byr að sigla norður með landi. Sigldi þá konungur allt norður í Ömd og gekk þar allt fólk undir kristni. Síðan snýr konungur ferð sinni aftur suður.

En er hann kom norðan að Salpti þá var hregg út eftir firði og sjádrif. Konungur lá þar nokkurar nætur og var veður hið sama. Þá talaði konungur við Sigurð biskup og spurði eftir ef hann kynni þar nokkuð ráð til leggja. Biskup segir að hann mundi freista ef guð vill sinn styrk til leggja að sigra þenna fjandakraft.