Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/80

Sigurður biskup tók allan messuskrúða sinn og gekk fram í stafn á konungsskipi, lét tendra kerti og bar reykelsi, setti róðukross upp í stafninn, las þar guðspjall og margar bænir aðrar, stökkti vígðu vatni um allt skipið. Síðan bað hann taka af tjöldin og róa inn á fjörðinn. Konungur lét þá kalla til annarra skipa að allir skyldu róa eftir honum. En er róður var greiddur á Trönunni þá gekk hún inn á fjörðinn og kenndu þeir engan vind á sér er því skipi reru og svo stóð tóftin eftir í varrsímanum að þar var logn en svo laus sjárokan brott frá hvorntveggja veg að hvergi sá fjöllin fyrir. Reri þá hvert skip eftir öðru þar í logninu. Fóru þeir svo allan dag og eftir um nóttina, komu litlu fyrir dag í Goðeyjar. En er þeir komu fyrir bæ Rauðs þá flaut þar fyrir landi dreki hans sá hinn mikli.

Ólafur konungur gekk þegar upp til bæjar með liði sínu, veittu þar atgöngu lofti því er Rauður svaf í og brutu upp. Hljópu menn þar inn. Var þá Rauður handtekinn og bundinn en drepnir þeir menn aðrir, er þar voru inni, en sumir handteknir. Þá gengu konungsmenn að skála þeim er húskarlar Rauðs sváfu í. Voru þar sumir drepnir en sumir bundnir, sumir barðir.

Lét þá konungur leiða Rauð fyrir sig, bauð honum að láta skírast. „Mun eg þá,“ segir konungur, „ekki taka af þér eigu þína, vera heldur vin þinn ef þú kannt til gæta.“

Rauður æpti á móti því, segir að aldrei skyldi hann á Krist trúa og guðlastaði mjög. Konungur varð þá reiður og sagði að Rauður skyldi hafa hinn versta dauða. Þá lét konungur taka hann og binda opinn á slá eina, lét setja kefli á millum tanna honum og lúka svo upp munninn. Þá lét konungur taka lyngorm einn og bera að munni honum en ormurinn vildi eigi í munninn og hrökktist frá í brott því að Rauður blés í móti honum. Þá lét konungur taka hvannnjólatrumbu og setja í munn Rauð, en sumir menn segja að konungur léti lúður sinn setja í munn honum, og lét þar í orminn, lét bera utan að slájárn glóanda. Hrökktist þá ormurinn í munn Rauð og síðan í hálsinn og skar út um síðuna. Lét Rauður þar líf sitt.

Ólafur konungur tók þar ófa mikið fé í gulli og silfri og öðru lausafé, í vopnum og margs konar dýrgripum. En menn alla, þá er fylgt höfðu Rauð, lét konungur skíra en þá er það vildu eigi lét hann drepa eða kvelja. Þá tók Ólafur konungur dreka er Rauður hafði átt og stýrði sjálfur því að það var skip miklu meira og fríðara en Traninn. Fram var á drekahöfuð en aftur krókur og fram af sem sporður og hvortveggi svírinn og allur stafninn var með gulli lagður. Það skip kallaði konungur Orminn því að þá er segl var á lofti skyldi það vera fyrir vængi drekans. Var þetta skip fríðast í öllum Noregi.

Eyjar þær er Rauður byggði heita Gylling og Hæring en allar saman heita þær Goðeyjar og Goðeyjarstraumur fyrir norðan, milli og meginlands. Ólafur konungur kristnaði fjörð þann allan, fer síðan leið sína suður með landi og varð í þeirri ferð mart það, er í frásögn er fært, er tröll og illar vættir glettust við menn hans og stundum við hann sjálfan. En vér viljum heldur rita um þá atburði er Ólafur konungur kristnaði Noreg eða önnur þau lönd er hann kom kristni á.

Ólafur konungur kom liði sínu það sama haust í Þrándheim og hélt til Niðaróss og bjó þar til vetursetu.

Það vil eg nú næst rita láta að segja frá íslenskum mönnum.