Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/97

Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar
Höfundur: Snorri Sturluson
97. Ferð Ólafs konungs

Ólafur konungur fór með liði sínu suður með landi. Sóttu þá til fundar við hann vinir hans margir, ríkismenn þeir er til ferðar voru búnir með konungi. Var þar hinn fyrsti maður Erlingur Skjálgsson mágur hans og hafði hann skeið hina miklu. Hún var þrítug að rúmatali og var það skip allvel skipað. Þá komu og til konungs mágar hans, Hyrningur og Þorgeir, og stýrði hvortveggi miklu skipi. Margir aðrir ríkismenn fylgdu honum. Hann hafði sex tigu langskipa er hann fór úr landi og sigldi suður fyrir Danmörk gegnum Eyrarsund.

Og í þeirri ferð kom Ólafur konungur til Vindlands og gerði stefnulag við Búrisláf konung og fundust þeir konungar. Töluðu þeir þá um eignir þær er Ólafur konungur heimti og fóru allar ræður líklega milli konunga og var góður greiðskapur um þær heimtingar er Ólafur konungur þóttist þar eiga. Dvaldist Ólafur konungur þar lengi um sumarið, fann þar marga vini sína.