Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/98

Sveinn konungur tjúguskegg átti þá Sigríði hina stórráðu sem fyrr er ritið. Sigríður var hinn mesti óvin Ólafs konungs Tryggvasonar og fann það til saka að Ólafur konungur hafði slitið einkamálum við hana og lostið hana í andlit svo sem fyrr var ritið.

Hún eggjaði mjög Svein konung til að halda orustu við Ólaf konung Tryggvason og segir að það var ærin sök við Ólaf konung er hann hafði lagst hjá Þyri systur hans „að ólofi yðru og mundu ekki hinir fyrri frændur yðrir slíkt þola.“

Hafði Sigríður drottning slíkar fortölur oftlega í munni og kom hún svo sínum fortölum að Sveinn konungur var fullkominn að gera það ráð.

Og snemma um vorið sendi Sveinn konungur menn austur í Svíþjóð á fund Ólafs Svíakonungs mágs síns og Eiríks jarls og lét segja þeim að Ólafur Noregskonungur hafði leiðangur úti og ætlaði að fara um sumarið til Vindlands. Fylgdi það orðsending að Svíakonungur og jarl skyldu her úti hafa og fara til móts við Svein konung, skyldu þeir þá allir saman leggja til orustu við Ólaf konung. En Svíakonungur og Eiríkur jarl voru þessarar ferðar albúnir og drógu þá saman skipaher mikinn af Svíaveldi, fóru því liði suður til Danmerkur og komu þar svo að Ólafur konungur Tryggvason hafði áður austur siglt.

Þess getur Halldór ókristni er hann orti um Eirík jarl:

Út bauð jöfra hneitir
élmóðr af Svíþjóðu,
suðr hélt gramr til gunnar,
gunnbliks liði miklu.
Hver vildi þá hölda,
hrægeitunga feitir,
már fékk á sjá sára
sylg, Eiríki fylgja.

Þeir Svíakonungur og Eiríkur jarl héldu til fundar við Danakonung og höfðu þá allir saman ógrynni hers.