Heimskringla/Ólafs saga helga/13

Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
13. Orusta hin sétta


Ólafur konungur lét gera flaka stóra af viðartaugum og af blautum viði og taka í sundur vandahús og lét það bera yfir skip sín svo vítt að tók út af borðum. Þar lét hann undir setja stafi svo þykkt og svo hátt að bæði var hægt að vega undan og ýrið stinnt fyrir grjóti ef ofan væri á borið.

En er herinn var búinn þá veita þeir atróður neðan eftir ánni. Og er þeir koma nær bryggjunum þá var borið ofan á þá bæði skot og grjót svo stórt að ekki hélt við, hvorki hjálmar né skildir, og skipin meiddust sjálf ákaflega. Lögðu þá margir frá. En Ólafur konungur og Norðmanna lið með honum reru allt upp undir bryggjurnar og báru kaðla um stafina, þá er upp héldu bryggjunum, og tóku þá og reru öllum skipunum forstreymis sem mest máttu þeir. Stafirnir drógust með grunni allt til þess er þeir voru lausir undir bryggjunum. En fyrir því að vopnaður her stóð á bryggjunum þykkt, þar var bæði grjót mart og hervopn mörg en stafirnir voru undan brotnir, bresta af því niður bryggjurnar og fellur fólkið mart ofan á ána en allt annað liðið flýði af bryggjunum, sumt í borgina en sumt í Súðvirki.

Eftir það veittu þeir atgöngu í Súðvirki og unnu það. En er borgarmenn sáu það að áin var unnin Temps svo að þeir máttu ekki banna skipfarar upp í landið þá hræddust þeir skipfarar og gáfu upp borgina og tóku við Aðalráði konungi.

Svo segir Óttar svarti:

Enn braustu, éla kennir,
Yggs veðrþorinn, bryggjur,
linns hefir lönd að vinna,
Lundúna, þér snúnað.
Höfðu hart um krafðir,
hildr óx við það, skildir
gang, en gamlir sprungu,
gunnþinga, járnhringar.

Og enn kvað hann þetta:

Komstu í land og lendir,
láðvörðr, Aðalráði.
Þín naut rekka rúni
ríki efldr að slíku.
Harðr var fundr sá er færðuð
friðlands á vit niðja,
réð áttstuðill áðan,
Játmundar, þar grundu.

Enn segir Sighvatur frá þessu:

Rétt er að sókn hin sétta,
snar þengill bauð Englum
at, þar er Ólafr sótti,
Yggs, Lundúna bryggjur.
Sverð bitu völsk en vörðu
víkingar þar díki.
Átti sumt í sléttu
Súðvirki lið búðir.