Heimskringla/Ólafs saga helga/137

Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
137. Frá bygging Jamtalands


Ketill jamti hét maður, sonur Önundar jarls úr Sparabúi í Þrándheimi. Hann flýði fyrir Eysteini konungi illráða austur um Kjöl. Hann ruddi markir og byggði þar sem nú heitir Jamtaland. Austur þangað flýði og fjöldi manna úr Þrándheimi fyrir þeim ófriði því að Eysteinn konungur skattgildi Þrændi og setti þar til konungs, hund sinn er Saur hét. Sonarsonur Ketils var Þórir helsingur. Við hann er kennt Helsingjaland. Þar byggði hann.

En er Haraldur hinn hárfagri ruddi ríki fyrir sér þá stukku enn fyrir honum fjöldi manna úr landi, Þrændir og Naumdælir, og gerðust þá enn byggðir austur um Jamtaland og fóru sumir allt í Helsingjaland austan frá hafinu og voru þeir lýðskyldir undir Svíakonung.

En er Hákon Aðalsteinsfóstri var yfir Noregi þá settist friður og kaupferð úr Þrándheimi til Jamtalands en fyrir sakir vinsælda konungs þá sóttu Jamtur austan á fund hans og játuðu honum hlýðni sinni og guldu honum skatt. Setti hann þeim lög og landsrétt. Vildu þeir heldur þýðast undir hans konungdóm en undir Svíakonung því að þeir voru af Norðmanna ætt komnir og svo gerðu Helsingjar þeir allir er æskaðir voru norðan um Kjöl. Og hélst það lengi síðan, allt til þess er Ólafur digri og Ólafur hinn sænski Svíakonungur deildu um landaskipti. Þá hurfu Jamtur og Helsingjar undir Svíakonung og réð þá landaskipti austan Eiðaskógur, en þá Kilir allt norður til Finnmerkur. Tók Svíakonungur þá skatta af Helsingjalandi og svo af Jamtalandi.

En Ólafi konungi þótti það komið hafa í sáttmál með þeim Svíakonungi að annan veg skyldi fara skattur af Jamtalandi en að fornu hafði verið. En þó hafði það langa stund svo staðið að Jamtur höfðu þá Svíakonungi skatt goldið og þaðan höfðu verið sýslumenn yfir landinu. Vildu þá og Svíar ekki heyra annað en undir Svíakonung hyrfi allt land það er lá fyrir austan Kjölu. Var það svo sem oft eru dæmi þó að mágsemdir og vinátta væru með konungum að þó vildi hvortveggi hafa ríki það allt er hann þóttist nokkura tiltölu eiga. Hafði Ólafur konungur látið fara orð um til Jamtalands að það var hans vilji að Jamtur veittu honum lýðskyldi en heitið þeim afarkostum ellegar. En Jamtur höfðu gert ráð sitt að þeir vildu hlýðni veita Svíakonungi.