Heimskringla/Ólafs saga helga/138
Þóroddur Snorrason og Steinn Skaftason undu illa er þeir fóru eigi í sjálfræði. Steinn Skaftason var manna fríðastur og best að sér ger um íþróttir, skáld gott og skartsmaður mikill og metnaðarfullur. Skafti faðir hans hafði ort drápu um Ólaf konung og hafði kennt Steini. Var svo ætlað að hann skyldi færa kvæðið konungi. Steinn bast eigi orða og ámælis við konung, bæði sundurlausum orðum og samföstum. Báðir voru þeir Þóroddur óvarmæltir, segja svo að konungur vildi verr hafa en þeir er sonu sína höfðu sent honum til trúnaðar en konungur lagði þá í ófrelsi. Konungur reiddist.
Það var einnhvern dag er Steinn Skaftason var fyrir konungi og spurði hann máls ef hann vildi hlýða drápu þeirri er Skafti faðir hans hafði ort um konung.
Hann segir: „Hitt mun fyrst til Steinn að þú kveðir það er þú hefir ort um mig.“
Steinn segir að það er ekki er hann hefir ort. „Em eg ekki skáld konungur,“ segir hann, „en þótt eg kynni yrkja þá mundi yður þykja það sem annað um mig heldur lítilvæglegt.“
Gekk Steinn þá í brott og þóttist finna hvar til hann mælti.
Þorgeir hét ármaður konungs er réð fyrir búi hans í Orkadal. Hann var þá með konungi og heyrði á ræður þeirra Steins. Fór Þorgeir heim litlu síðar.
Það var á einni hverri nótt að Steinn hljóp í brott úr bænum og skósveinn hans með honum. Fóru þeir upp um Gaularás, svo út til þess er þeir komu í Orkadal en að kveldi komu þeir til konungsbús þess er Þorgeir réð fyrir. Bauð Þorgeir Steini þar að vera um nóttina og spurði hverju gegndi um farar hans. Steinn bað hann fá sér hest og sleða með. Sá hann að þar var heim ekið korni.
Þorgeir segir: „Eigi veit eg hvernug af stenst um för þína, hvort þú ferð nokkuð í konungs leyfi. Þótti mér fyrra dags ekki mjúkt orð milli ykkar konungs.“
Steinn mælti: „Þótt eg sé að engu sjálfráður fyrir konungi þá skal eg ekki svo fyrir þrælum hans.“
Brá hann sverði og drap hann síðan ármanninn en hann tók hestinn og bað sveininn hlaupa á bak en Steinn settist í sleðann, fóru þá veginn, óku nóttina alla. Fóru þeir ferðar sinnar til þess er þeir komu ofan á Mæri í Súrnadal. Síðan fá þeir sér flutningar yfir fjörðu. Fór hann sem ákaflegast. Ekki sögðu þeir mönnum víg þetta þar sem þeir komu en kölluðust vera konungsmenn. Fengu þeir góðan forbeina hvar sem þeir komu.
Þeir komu að kveldi eins dags í Giska til bús Þorbergs Árnasonar. Var hann eigi heima en kona hans var heima, Ragnhildur dóttir Erlings Skjálgssonar. Fékk Steinn þar allgóðar viðtekjur því að þar voru áður kunnleikar miklir með þeim.
Sá atburður hafði áður orðið þá er Steinn hafði farið af Íslandi, átti hann þá sjálfur skip það er hann kom af hafi utan að Giska og lágu þar við eyna, þá lá Ragnhildur og skyldi léttari verða og var allþungt haldin en prestur var engi í eyjunni og engi nær. Var þá komið til kaupskipsins og spurt að ef þar væri prestur nokkur. Þar var einn prestur á skipi er Bárður hét, vestfirskur maður, ungur og lærður heldur lítt. Sendimenn báðu prest fara með sér til húss. Honum þótti sem það mundi vera vandi mikill en vissi fákunnandi sína og vildi eigi fara. Þá lagði Steinn orð til við prest og bað hann fara.
Prestur svarar: „Fara mun eg ef þú ferð með mér. Þykir mér traust að því til umráða.“
Steinn segir að hann vill víst það til leggja. Síðan fara þeir til bæjarins og þar til er Ragnhildur var. Litlu síðar fæddi hún barn, það var mær, og þótti heldur ómáttulegt. Þá skírði prestur barnið en Steinn hélt meyjunni undir skírn og hét sú mær Þóra. Steinn gaf meyjunni fingurgull. Ragnhildur hét Steini vináttu sinni fullkominni og hann skyldi þangað koma á hennar fund ef hann þættist hennar liðsemdar þurfa. Steinn segir svo að hann mundi eigi fleirum meybörnum undir skírn halda og skildust þau að svo búnu.
En nú var þar komið er Steinn heimti þessi vilmæli að Ragnhildi og segir hvað hann hefir hent og svo það að hann mun hafa orðið fyrir reiði konungs. Hún segir svo að máttur skal að magni um liðveislu hennar, bað hann þaðan bíða Þorbergs, skipaði honum hið næsta Eysteini orra syni sínum. Hann var þá tólf vetra gamall. Steinn gaf gjafir þeim Ragnhildi og Eysteini.
Þorbergur hafði spurt allt um farar Steins fyrr en hann kæmi heim og var hann heldur ófrýnn. Ragnhildur gekk til máls við hann og segir honum um farar Steins og bað hann taka við Steini og sjá á mál hans.
Þorbergur segir: „Eg hefi spurt,“ segir hann, „að konungur hefir eiga látið örvarþing eftir Þorgeir og Steinn er útlagur ger, svo það að konungur er hinn reiðasti. Og kann eg mér meiri svinnu en að takast á hendur einn útlendan mann og hafa þar fyrir reiði konungs. Láttu Stein fara í brott héðan sem skjótast.“
Ragnhildur svarar, segir að þau mundu bæði í brott fara eða bæði þar vera.
Þorbergur bað hana fara hvert er hún vildi. „Vænti eg þess,“ segir hann, „þótt þú farir að þú komir skjótt aftur því að hér munu vera metorð þín mest.“
Þá gekk fram Eysteinn orri sonur þeirra. Hann mælti og segir svo að hann mun eigi eftir vera ef Ragnhildur færi í brott.
Þorbergur segir að þau lýstu mikla þrágirni og ákaflyndi í þessu. „Og er það nú vænst,“ segir hann, „að þið ráðið þessu, þó þykir ykkur allmiklu skipta. En of mjög er þér ættgengt Ragnhildur að virða lítils orð Ólafs konungs.“
Ragnhildur segir: „Ef þér vex allmjög fyrir augum að halda Stein þá far þú sjálfur með honum á fund Erlings föður míns eða fá honum það föruneyti er hann komist þangað í friði.“
Þorbergur segir að hann mun ekki Stein þangað senda „og mun Erlingi þó ærið mart til handa bera, það er konungi sé misþokki á.“
Var Steinn þar um veturinn.
En eftir jól komu til Þorbergs sendimenn konungs með þeim orðum að Þorbergur skal koma á fund hans fyrir miðja föstu og er lagt ríkt við þessa orðsending. Þorbergur bar það fyrir vini sína og leitaði ráðs hvort hann skyldi á þá hættu leggja að fara á fund konungs að svo förnu máli en fleiri löttu og kölluðu það ráð að láta fyrr Stein af höndum en fara á vald konungs. Þorbergur var hins fúsari að leggjast eigi ferð undir höfuð.
Nokkuru síðar fór Þorbergur til fundar við Finn bróður sinn og bar þetta mál fyrir hann og bað hann til farar með sér. Finnur svarar, segir að honum þótti illt ofkvæni slíkt að þora eigi fyrir konu sinni að halda einurð við lánardrottin sinn.
„Kost muntu eiga,“ segir Þorbergur, „að fara eigi en þó ætla eg að þú letjist meir fyrir hræðslu sakir en hollustu við konung.“
Skildust þeir reiðir.
Síðan fór Þorbergur á fund Árna Árnasonar bróður síns og segir honum þetta mál svo búið og bað hann fara með sér til konungs.
Árni segir: „Undarlegt þykir mér um þig svo vitran mann og fyrirleitinn er þú skalt rasað hafa í svo mikla óhamingju og hafa fengið konungs reiði þar er engi bar nauðsyn til. Það væri nokkur vorkunn að þú héldir frænda þinn eða fóstbróður en þetta alls engi, að hafa tekist á hendur mann íslenskan að halda, útlaga konungs, og hafa nú þig í veði og alla frændur þína.“
Þorbergur segir: „Svo er sem mælt er: Einn er aukvisi ættar hverrar. Sú óhamingja föður míns er mér auðsæst hversu honum glapnaði sonaeign er hann skyldi fá þann síðast er engi líkindi hefir vorrar ættar og dáðlaus er. Mundi það sannast ef mér þætti eigi við móður mína skömm mælt að eg mundi þig aldregi kalla vorn bróður.“
Sneri þá Þorbergur í brott og fór heim og var heldur ókátur. Síðan sendi hann orð norður til Þrándheims á fund Kálfs bróður síns og bað hann koma til Agðaness móti sér. Og er sendimenn hittu Kálf þá hét hann ferðinni og hafði engi orð fyrir.
Ragnhildur sendi menn austur á Jaðar til Erlings föður síns og bað hann senda sér lið. Þaðan fóru synir Erlings, Sigurður og Þórir, og hafði hvor þeirra tvítugsessu og á níu tigu manna. En er þeir komu norður til Þorbergs þá tók hann við þeim sem best og feginsamlegast. Bjóst hann þá til farar og hafði Þorbergur tvítugsessu. Fóru þeir þá norður leið sína.
Og er þeir komu... þá lágu þar fyrir Finnur og Árni bræður Þorbergs með tvær tvítugsessur. Fagnaði Þorbergur vel bræðrum sínum og segir að þá hefðu tekið brýningunni. Finnur kvað þess sjaldan hafa þurft við sig. Síðan fóru þeir með liði því öllu norður til Þrándheims og var þar Steinn í för.
Og er þeir komu til Agðaness þá var þar fyrir Kálfur Árnason og hafði hann tvítugsessu vel skipaða. Fóru þeir með því liði inn til Niðarhólms og lágu þar um nótt.
Eftir um morguninn áttu þeir tal sitt. Vildi Kálfur og synir Erlings að þeir færu öllu liðinu inn til bæjarins og létu þá skeika að sköpuðu en Þorbergur vildi að fyrst væri með vægð farið og láta boð bjóða. Samþykktist Finnur því og Árni. Var þá það afráðið að þeir Finnur og Árni fóru fyrst til fundar við Ólaf konung, fáir menn saman.
Konungur hafði þá spurt um fjölmenni það er þeir höfðu og var hann heldur styggur í ræðunni þeirra. Finnur bauð boð fyrir Þorberg og svo fyrir Stein. Bauð hann að konungur skyldi fé gera svo mikið sem hann vildi en Þorbergur hafa landsvist og veislur sínar, Steinn lífs grið og lima.
Konungur segir: „Svo líst mér sem þessi för muni vera svo að þér munuð nú þykjast hafa hálf ráð við mig eða meir. En þess mun mig síst vara af yður bræðrum að þér munduð með her fara í móti mér. Kenni eg ráð þessi er þeir Jaðarbyggjar munu hafa upp hafið. En ekki þarf mér fé bjóða.“
Þá segir Finnur: „Ekki höfum vér bræður fyrir þá sök haft liðsafnað að vér munum ófrið bjóða yður konungur heldur ber hitt til konungur að vér viljum yður fyrst bjóða vora þjónustu en ef þér neitið og ætlið Þorbergi nokkura afarkosti þá munum vér fara allir með lið það er vér höfum á fund Knúts hins ríka.“
Þá leit konungur við honum og mælti: „Ef þér bræður viljið veita mér svardaga til þess að fylgja mér innanlands og utanlands og skiljast eigi við mig nema mitt lof og leyfi sé til, eigi skuluð þér leyna mig ef þér vitið mér ráðin svikræði, þá vil eg taka sætt af yður bræðrum.“
Síðan fór Finnur aftur til liðs síns og segir þessa kosti er konungur hafði gert þeim. Bera þeir nú saman orð sín.
Segir Þorbergur að hann vill þenna kost fyrir sína hönd. „Em eg ófús,“ segir hann, „að flýja af eignum mínum og sækja til útlendra höfðingja. Ætla eg mér munu ávallt að sæmd að fylgja Ólafi konungi og vera þar sem hann er.“
Þá segir Kálfur: „Enga eiða mun eg vinna konungi en vera þá eina hríð með konungi er eg held veislum mínum og öðrum metorðum og konungur vill vera vinur minn og er það minn vilji að svo gerum vér allir.“
Finnur svarar: „Til þess mun eg ráða að láta Ólaf konung einn ráða skildögum milli okkar.“
Árni Árnason segir svo: „Ef eg em ráðinn til að fylgja þér Þorbergur bróðir þóttú viljir berjast við konung þá skal eg eigi við þig skiljast ef þú tekur betra ráð og mun eg fylgja ykkur Finni og taka þann kost sem þið sjáið ykkur til handa.“
Gengu þeir þá þrír bræður á eitt skip, Þorbergur, Finnur, Árni, og reru inn til bæjar og síðan gengu þeir á konungs fund. Fór þá fram þetta sáttmál að þeir bræður svörðu konungi eiða. Þá leitaði Þorbergur Steini sættar við konung.
En konungur segir að Steinn skyldi fara í friði fyrir honum hvert er hann vildi „en eigi mun hann með mér vera síðan,“ segir hann.
Þá fóru þeir Þorbergur út til liðsins. Fór þá Kálfur inn á Eggju en Finnur fór til konungs en Þorbergur og annað lið þeirra fór heim suður.
Steinn fór suður með sonum Erlings en um vorið snemma fór hann vestur til Englands en síðan til handa Knúti hinum ríka og var með honum lengi í góðu yfirlæti.