Heimskringla/Ólafs saga helga/165

Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
165. Dráp Þóris


Þórir sonur Ölvis á Eggju, stjúpsonur Kálfs Árnasonar og systursonur Þóris hunds, var manna fríðastur, mikill maður og sterkur. Hann var þá átján vetra gamall. Hann hafði fengið gott kvonfang á Heiðmörk og auð fjár með. Var hann hinn vinsælsti maður og þótti vænn til höfðingja. Hann bauð konungi heim til veislu með lið sitt. Konungur þekktist boð það og fór til Þóris, fékk þar allgóðar viðtökur. Var þar veisla hin virðulegsta, var veitt allkappsamlega en öll voru föng hin bestu.

Konungur og menn hans ræddu það sín í milli að þeim þótti það mjög hæfast við og vissu eigi hvað þeim þótti framast húsakynni Þóris eða húsbúnaður, borðbúnaður eða drykkur eða maður sá er veitti. Dagur lét sér fátt um finnast.

Ólafur konungur var vanur að hafa oft ræður við Dag og spurði hann ýmissa hluta. Reyndist konungi allt það með sannindum er Dagur sagði hvort sem það var liðið eða ókomið fram. Festi þá konungurinn trúnað mikinn á ræðum hans. Þá kallaði konungur Dag á einmæli og ræddi þá mjög marga hluti fyrir honum.

Þar kom niður ræða konungs að hann tjáði það fyrir Dag hve skörulegur maður Þórir var er þeim gerði þá veislu virðulega. Dagur lét sér fátt um finnast og lét það allt satt er konungur segir. Þá spurði konungur Dag hverja skapsannmarka hann sæi Þóris. Dagur kvaðst hyggja að Þórir mundi vel skapfarinn ef honum væri það svo gefið sem hitt er alþýða mátti sjá. Konungur bað hann segja sér það er hann spurði, segir að hann var þess skyldur.

Dagur svarar: „Þá muntu konungur vilja veita mér að eg ráði hefndinni ef eg skal finna löstinn.“

Konungur segir að hann vill eigi dómum sínum skjóta undir aðra menn en bað Dag segja sér það er hann spurði.

Dagur svarar: „Dýrt er drottins orð. Það mun eg til skapslastar Þóri finna sem margan kann henda: Hann er maður of fégjarn.“

Konungur svarar: „Er hann þjófur eða ránsmaður?“

Dagur svarar: „Eigi er það,“ segir hann.

„Hvað er þá?“ segir konungur.

Dagur svarar: „Hann vann það til fjár að hann gerðist drottinssviki. Hann hefir tekið fé af Knúti hinum ríka til höfðuðs þér.“

Konungur svarar: „Hvernug gerir þú það satt?“

Dagur mælti: „Hann hefir á hinni hægri hendi fyrir ofan ölboga digran gullhring er Knútur konungur hefir gefið honum og lætur engan mann sjá.“

Eftir það slitu þeir konungur tali sínu og var konungur reiður mjög.

Þá er konungur sat yfir borðum og menn höfðu drukkið um hríð og voru menn allkátir. Þórir gekk um beina. Þá lét konungur kalla Þóri til sín. Hann gekk framan að borðinu og tók höndum upp á borðið.

Konungur spurði: „Hversu gamall maður ertu Þórir?“

„Eg em átján vetra gamall,“ segir hann.

Konungur mælti: „Mikill maður ertu Þórir, jafngamall, og göfuglegur.“

Tók þá konungur um hönd hina hægri og strauk upp um ölboga.

Þórir mælti: „Tak þú kyrrt þar á. Eg hefi sull á hendi.“

Konungur hélt hendinni og kenndi að þar var hart undir. Konungur mælti: „Hefir þú eigi spurt það að eg em læknir? Og láttu mig sjá sullinn.“

Þórir sá að þá mundi ekki tjóa að leyna, tók þá hringinn og lét fram. Konungur spyr hvort það var Knúts konungs gjöf. Þórir segir að ekki var þá því að leyna. Konungur lét Þóri taka höndum og setja í járn.

Þá gekk Kálfur að og bað Þóri friðar og bauð fyrir hann fé. Margir menn studdu það mál og buðu sitt fé fram. Konungur var svo reiður að ekki mátti orðum við hann koma. Segir hann að Þórir skyldi hafa slíkan dóm sem hann hafði honum hugðan.

Síðan lét konungur drepa Þóri en verk það varð að hinni mestu öfund bæði þar um Upplönd og engum mun síður norður um Þrándheim þar sem ætt Þóris var flest. Kálfi þótti og mikils vert aftaka þessa manns því að Þórir hafði verið fósturson hans í æsku.