Heimskringla/Ólafs saga helga/166

Grjótgarður sonur Ölvis og bróðir Þóris, hann var eldri þeirra bræðra. Var hann og hinn göfuglegsti maður og hafði sveit um sig. Hann var þá og staddur á Heiðmörk. En er hann spurði aftöku Þóris þá veitti hann árásir þar sem fyrir voru menn konungs eða fé hans, eða að öðru hverju hafðist hann við á skógum eða í öðrum fylgsnum.

En er konungur spurði ófrið þann þá lét hann njósnum til halda um ferðir Grjótgarðs. Verður konungur var við ferðir hans. Hafði Grjótgarður tekið náttstað eigi langt frá því er konungur var. Ólafur konungur fór þegar um nóttina, kom þar er dagaði, slógu mannhring um stofuna þar er þeir Grjótgarður voru inni. Þeir Grjótgarður vöknuðu við mannagný og vopnabrak. Hljópu þeir þá þegar til vopna. Hljóp Grjótgarður út í forstofuna. Grjótgarður spurði hver fyrir liði því réði. Honum var sagt að þar var kominn Ólafur konungur. Grjótgarður spurði ef konungur mætti nema orð hans.

Konungur stóð fyrir durunum. Hann segir að Grjótgarður mátti mæla slíkt er hann vildi. „Heyri eg orð þín,“ segir konungur.

Grjótgarður mælti: „Ekki mun eg griða biðja.“

Þá hljóp Grjótgarður út, hafði skjöld yfir höfði sér en sverð brugðið í hendi. Lítt var lýst og sá hann ógerla. Hann lagði sverði til konungs en þar varð fyrir Arnbjörn Árnason. Kom lagið undir brynjuna og renndi upp í kviðinn. Fékk Arnbjörn þar bana. Grjótgarður var og þegar drepinn og flest allt lið hans.

Eftir þessa atburði sneri konungur ferðinni aftur suður til Víkurinnar.