Heimskringla/Ólafs saga helga/78


Þá var á Tíundalandi sá lögmaður er Þorgnýr hét. Faðir hans er nefndur Þorgnýr Þorgnýsson. Þeir langfeðgar höfðu verið lögmenn á Tíundalandi um margra konunga ævi. Þorgnýr var þá gamall. Hann hafði um sig mikla hirð. Hann var kallaður vitrastur maður í Svíaveldi. Hann var frændi Rögnvalds jarls og fósturfaðir hans.

Nú er þar til máls að taka er þeir menn komu til Rögnvalds jarls er Ingigerður konungsdóttir og þau Hjalti höfðu sent austan. Báru þeir fram sín erindi fyrir Rögnvald jarl og Ingibjörgu konu hans og sögðu það að konungsdóttir hafði oft rætt fyrir Svíakonungi um sættir milli þeirra Ólafs konungs digra og hún var hinn mesti vinur Ólafs konungs en Svíakonungur varð reiður hvert sinni er hún gat Ólafs og henni þótti engi von um sættirnar að svo búnu. Jarl segir Birni hvað hann hafði austan spurt en Björn segir enn hið sama að hann mun eigi fyrr aftur hverfa en hann hitti Svíakonung og segir að jarl hefir honum því heitið að hann skal fylgja honum á fund Svíakonungs.

Nú líður fram vetrinum og þegar á bak jólum býr jarl ferð sína og hefir sex tigu manna. Þar var í för Björn stallari og hans förunautar. Fór jarl austur allt í Svíþjóð en er hann sótti upp í landið þá sendi hann menn sína fram fyrir til Uppsala og sendi orð Ingigerði konungsdóttur að hún skyldi fara út á Ullarakur á móti honum. Þar átti hún bú stór.

En er konungsdóttur komu orð jarls þá lagðist hún eigi ferðina undir höfuð og bjóst hún með marga menn. Hjalti réðst til farar með henni.

En áður hann færi í brott gekk hann fyrir Ólaf konung og mælti: „Sittu allra konunga heilastur. Og er það satt að segja að eg hefi hvergi þess komið er eg hafi slíka tign séð sem með þér. Skal eg það orð bera hvar sem eg kem síðan. Vil eg þess biðja yður konungur að þú sért vinur minn.“

Konungur svarar: „Hví lætur þú svo brautfúslega? Hvert skaltu fara?“

Hjalti svarar: „Eg skal ríða út á Ullarakur með Ingigerði dóttur þinni.“

Konungur mælti: „Farðu þá vel. Vitur maður ertu og siðugur og kannt vel að vera með tignum mönnum.“

Gekk þá Hjalti í brott.

Ingigerður konungsdóttir reið til bús síns út á Ullarakur, lét þar búa veislu mikla í mót jarli. Þá kom jarl þar og var honum vel fagnað. Dvaldist hann þar nokkurar nætur. Töluðu þau konungsdóttir mart og flest um þá Svíakonung og Noregskonung. Segir hún jarli að henni þykir óvænt horfa um sættirnar.

Þá mælti jarl: „Hvernug er þér gefið frændkona um það ef Ólafur Noregskonungur biður þín? Sýnist oss það sem helst muni til sætta einhlítt ef mægðir þær mættu takast milli þeirra konunga en eg vil ekki ganga með því máli ef eg veit að það er þvert frá þínum vilja.“

Hún segir: „Faðir minn mun sjá kost fyrir mér en annarra minna frænda ertu sá er eg vil helst mín ráð undir eiga, þau er mér þykir miklu máli skipta. Eða hve ráðlegt sýnist þér þetta?“

Jarl fýsti hana mjög og taldi marga hluti upp til frama um Ólaf konung, þá er stórveglegir voru, sagði henni innilega frá þeim atburðum er þá höfðu fyrir skemmstu gerst er Ólafur konungur hafði handtekna gert fimm konunga á einum morgni og tekið þá alla af ríki en lagt þeirra eignir og ríki við sitt veldi. Mart ræddu þau um þetta mál og urðu á allar ræður sátt sín í milli. Fór jarl í brott er hann var að því búinn. Hjalti fór með honum.