Heimskringla/Ólafs saga helga/79
Rögnvaldur jarl kom einn dag að kveldi til bús Þorgnýs lögmanns. Þar var bær mikill og stórkostlegur. Voru þar margir menn úti. Þeir fögnuðu vel jarli og tóku við hestum þeirra og reiða. Jarl gekk inn í stofuna. Var þar inni fjölmenni mikið. Þar sat í öndugi maður gamall. Engi mann höfðu þeir Björn séð jafnmikinn. Skeggið var svo sítt að lá í knjám honum og breiddist um alla bringuna. Hann var vænn maður og göfuglegur.
Jarl gekk fyrir hann og heilsaði honum. Þorgnýr fagnar honum vel og bað hann ganga til sætis þess er hann var vanur að sitja. Jarl settist öðrum megin gegnt Þorgný. Þeir dvöldust þar nokkurar nætur áður jarl bar upp erindi sín. Bað hann að þeir Þorgnýr skyldu ganga í málstofu. Þeir Björn förunautar gengu þannug með jarli.
Þá tók jarl til máls og segir frá því að Ólafur Noregskonungur hafði senda menn sína austur þannug til friðgerðar, talaði og um það langt hvert vandræði Vestur-Gautum var að því er ófriður var þaðan til Noregs. Hann segir og frá því að Ólafur Noregskonungur hafði þangað senda menn og þar voru þá sendimenn konungs og hann hafði þeim því heitið að fylgja þeim á fund Svíakonungs. Og hann segir að Svíakonungur tók þessu máli svo þunglega að hann lét engum manni hlýða skyldu að ganga með þessu máli. „Nú er svo fóstri,“ segir jarl, „að eg verð eigi einhlítur að þessu máli. Hefi eg fyrir því nú sótt á þinn fund og vænti eg þar heillaráða og trausts þíns.“
En er jarl hætti sínu máli þá þagði Þorgnýr um hríð. En er hann tók til máls mælti hann: „Undarlega skiptið þér til, girnist að taka tignarnafn en kunnið yður engi forráð eða fyrirhyggju þegar er þér komið í nokkurn vanda. Hví skyldir þú eigi hyggja fyrir því áður þú hétir þeirri ferð að þú hefir ekki ríki til þess að mæla í mót Ólafi konungi? Þykir mér það eigi óvirðilegra að vera í búanda tölu og vera frjáls orða sinna, að mæla slíkt er hann vill þótt konungur sé hjá. Nú mun eg koma til Uppsalaþings og veita þér það lið að þú mælir þar óhræddur fyrir konungi slíkt er þér líkar.“
Jarl þakkaði honum vel þessi heit og dvaldist hann með Þorgný og reið með honum til Uppsalaþings. Var þar allmikið fjölmenni. Þar var Ólafur konungur með hirð sinni.