Heimskringla/Hákonar saga herðibreiðs/10
Nú er liðið var búið þá greiða þeir atróðurinn og ljósta upp hvorirtveggju herópi. Tengdu þeir Inga menn ekki sín skip og fóru ekki samfast því að þeir reru þveran hvern strauminn og sveif mjög stórskipum. Erlingur skakki lagði að skipi Hákonar konungs og stakk stafni að milli og Sigurðar skips. Tókst þá orusta.
En skip Gregoríus sveif upp á grunninn og hallaði mjög og komust þeir í fyrstu ekki við atlöguna. En er Hákonar menn sáu það þá lögðu þeir til og sóttu að þeim en skip Gregoríus lá fyrir.
Þá lagði að Ívar sonur Hákonar maga og sveif saman lyftingunum. Ívar krækti stafnljá um Gregoríus þar sem hann var mjóstur og hnykkti að sér og hörfaði Gregoríus að borðinu út en léinn upp eftir síðunni og var við sjálft að hann mundi krækja hann fyrir borð. Gregoríus varð lítt sár því að hann hafði spangabrynju. Ívar kallaði á hann og kvað hann þykkbyrt hafa. Gregoríus segir, kvað hann svo um búa að þess þurfti við og gekk þó ekki af. Þá var við sjálft að þeir Gregoríus mundu verða fyrir borð að ganga áður en Áslákur ungi kom akkeri í skip þeirra og dró þá af grunninu. Þá lagði Gregoríus að skipi Ívars og áttust þeir þá við langa hríð. Var skip Gregoríusar meira og fjölmennara. Féll mjög lið á Ívars skipi en sumir hljópu fyrir borð. Ívar varð sár mjög svo að hann var óvígur. En er skip hans var hroðið þá lét Gregoríus flytja hann til lands og kom honum undan og voru þeir vinir síðan.