Heimskringla/Hákonar saga herðibreiðs/9

Heimskringla - Hákonar saga herðibreiðs
Höfundur: Snorri Sturluson
9. Frá liðsmönnum Inga konungs


Nú er að segja frá Inga mönnum þá er þeir sáu að Hákonar menn bjuggust til orustu. Var þá áin ein milli þeirra. Þá gerðu þeir hleypiskip út eftir liði sínu, því er brott hafði róið, að þeir skyldu aftur snúa en konungur og annað liðið beið þeirra og skipuðu liði sínu til atlögu. Þá töluðu höfðingjar og sögðu liðinu fyrirætlan sína, það fyrst hver skipin skyldu næst liggja.

Gregoríus mælti: „Vér höfum mikið lið og frítt. Nú er það mitt ráð að þér, konungur, verið eigi í atlögunni því að þá er alls gætt er yðar er og eigi veit hvar óskytja ör geigar. Þeir hafa þann viðbúnað að úr húnköstulum á kaupskipunum er borið grjót og skot. Þá er þeim litlu óhættara er fjarran eru. Þeir hafa lið eigi meira, en það er við vort hæfi lendra manna að halda orustu við þá. Eg mun leggja mitt skip að því skipi þeirra er mest er. Vænti eg enn að skömm raun sé að berjast við þá. Svo hefir enn oftast verið á vorum fundum þótt annan veg hafi liðsmunur verið en nú er.“

Þetta líkaði öllum vel er Gregoríus mælti að konungur sjálfur væri eigi í orustu.

Þá mælti Erlingur skakki: „Því ráði vil eg fylgja að þér, konungur, farið eigi til orustu. Líst mér svo á viðbúnað þeirra sem vér munum þurfa viðsjá að gjalda ef vér skulum eigi fá mikið manntjón af þeim. Þykir mér best um heilt að binda. Sú ráðagerð, er vér höfðum fyrr í dag, þá mæltu þar margir í mót því er eg réð og sögðu að eg vildi eigi berjast. En mér þykir oss nú hafa snúist til mikilla hæginda er þeir eru í brottu frá stikunum. En nú er svo komið að eg mun eigi letja að leggja til orustu því að eg sé það, er allir mega vita, hversu mikil nauðsyn á er að stökkva óaldarflokki þessum er farið hefir um land allt með rán og rifs og mættu menn eftir það byggja land í friði og þjóna einum konungi, þeim er svo er góður og réttlátur sem Ingi konungur er, og hefir þó lengi haft volk og vandræði af ofsa og ójafnaði frænda sinna og borið brjóst fyrir allri alþýðu og lagt sig í margfaldan háska til að friða landið.“

Mart talaði Erlingur og snjallt og enn fleiri höfðingjar og kom í sama stað niður að allir eggjuðu atlögunnar. Þeir biðu þess er allt kom saman lið þeirra. Ingi konungur hafði þá Bækisúðina og lét hann að bæn vina sinna, að hann lagði eigi til orustu og lá hann eftir við eyna.