Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/31

Heimskringla - Haraldar saga hárfagra
Höfundur: Snorri Sturluson
31. Dauði Rögnvalds Mærajarls

Þá er Haraldur konungur var fertugur að aldri þá voru margir synir hans vel á legg komnir. Þeir voru allir bráðgervir. Kom þá svo að þeir undu illa við er konungur gaf þeim ekki ríki en setti jarl í hverju fylki og þótti þeim jarlar vera smábornari en þeir voru.

Þá fóru til á einu vori Hálfdan háleggur og Guðröður ljómi með mikla sveit manna og komu á óvart Rögnvaldi Mærajarli og tóku hús á honum og brenndu hann inni við sex tigu manna. Þá tók Hálfdan langskip þrjú og skipaði og siglir síðan vestur um haf en Guðröður settist þar að löndum sem áður hafði haft Rögnvaldur jarl.

En er Haraldur konungur spurði þetta þá fór hann þegar með liði miklu á hendur Guðröði. Sá Guðröður engan annan sinn kost en gefast upp í vald Haralds konungs og sendi konungur hann austur á Agðir. En Haraldur konungur setti þá yfir Mæri Þóri son Rögnvalds jarls og gifti honum Ólöfu dóttur sína er kölluð var árbót. Þórir jarl þegjandi hafði þá ríki þvílíkt sem haft hafði Rögnvaldur jarl faðir hans.