Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/40
Aðalsteinn hét þá konungur í Englandi er þá hafði nýtekið við konungdómi. Hann var kallaður hinn sigursæli og hinn trúfasti.
Hann sendi menn til Noregs á fund Haralds konungs með þess konar sending að sendimaður gekk fyrir konung. Hann selur konungi sverð gullbúið með hjöltum og meðalkafla og öll umgerð var búin með gulli og silfri og sett dýrlegum gimsteinum.
Hélt sendimaðurinn sverðshjöltunum til konungsins og mælti: „Hér er sverð er Aðalsteinn konungur mælti að þú skyldir við taka.“
Tók konungur meðalkaflann og þegar mælti sendimaðurinn: „Nú tókstu svo sem vor konungur vildi og nú skaltu vera þegn hans er þú tókst við sverði hans.“
Haraldur konungur skildi nú að þetta var með spotti gert en hann vildi einskis manns þegn vera. En þó minntist hann þess sem hans háttur var að hvert sinn er skjót æði eða reiði hljóp á hann, að hann stillti sig fyrst og lét svo renna af sér reiðina og leit á sakar óreiður. Nú gerir hann enn svo og bar þetta fyrir vini sína og finna þeir allir saman hér ráð til, það hið fyrsta að láta sendimenn heim fara óspillta.