Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/41

Heimskringla - Haraldar saga hárfagra
Höfundur: Snorri Sturluson
41. Ferð Hauks til Englands

Annað sumar eftir sendi Haraldur konungur skip vestur til Englands og fékk til stýrimann Hauk hábrók. Hann var kappi mikill og hinn kærsti konungi. Hann fékk í hönd honum Hákon son sinn.

Haukur fór þá vestur til Englands á fund Aðalsteins konungs og fann hann í Lundúnum. Þar var þá boð fyrir og veisla virðileg. Haukur segir sínum mönnum þá er þeir koma að höllinni hvernug þeir skulu hátta inngöngunni, segir að sá skal síðast út ganga er fyrstur gengur inn og allir standa jafnfram fyrir borðinu og hver þeirra hafa sverð á vinstri hlið og festa svo yfirhöfnina að eigi sjái sverðið. Síðan ganga þeir inn í höllina. Þeir voru þrír tigir manna. Gekk Haukur fyrir konung og kvaddi hann. Konungur biður hann velkominn. Þá tók Haukur sveininn Hákon og setur á kné Aðalsteini konungi. Konungur sér á sveininn og spyr Hauk hví hann fer svo.

Haukur svarar: „Haraldur konungur bað þig fóstra honum ambáttarbarn.“

Konungur varð reiður mjög og greip til sverðs er var hjá honum og brá svo sem hann vildi drepa sveininn.

„Knésett hefir þú hann nú,“ segir Haukur. „Nú máttu myrða hann ef þú vilt en ekki muntu með því eyða öllum sonum Haralds konungs.“

Gekk Haukur síðan út og allir hans menn og fara leið sína til skips og halda í haf er þeir eru að því búnir og komu aftur til Noregs á fund Haralds konungs og líkaði honum nú vel því að það er mál manna að sá væri ótignari er öðrum fóstraði barn.

Í þvílíkum viðskiptum konunga fannst það að hvor þeirra vildi vera meiri en annar og varð ekki misdeili tignar þeirra að heldur fyrir þessar sakir. Hvortveggi var yfirkonungur síns ríkis til dauðadags.