Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/9
Höfundur: Snorri Sturluson
9. Haraldur konungur hafði úti leiðangur
Þann vetur fékk Haraldur konungur Ásu dóttur Hákonar jarls Grjótgarðssonar og hafði Hákon jarl mestan metnað af konungi.
Um vorið réð Haraldur konungur til skipa. Hann hafði látið gera um veturinn dreka mikinn og allvel búinn. Þar skipaði hann á hirð sinni og berserkjum. Stafnbúar voru mest vandaðir því að þeir höfðu merki konungs. Aftur frá stafnrúmi til austrúms, það var kallað á rausn. Var þar skipað berserkjum. Þeir einir náðu hirðvist með Haraldi konungi er afreksmenn voru að afli og hreysti og alls konar atgervi. Slíkum einum voru þá skipuð herskipin því að hann átti þá góð völ á að kjósa sér hirðmenn úr hverju fylki. Haraldur konungur hafði her mikinn og mörg stórskip og margir ríkismenn fylgdu honum.
Þess getur Hornklofi skáld í Glymdrápu að Haraldur konungur hafði fyrr barist á Uppdalsskógi við Orkndæli en hann hefði leiðangur þenna úti:
- Hilmir réð á heiði,
- hjaldrskíðs þrimu, galdra
- óðr við æskimeiða
- ey vébrautar, heyja,
- áðr gnapsalar Gripnis
- gnýstærandi færi
- rausnarsamr til rimmu
- ríðviggs lagar skíðum.
- Gerðist glamma ferðar
- gný-Þróttr jöru, dróttar
- helkannandi hlenna
- hlymræks, um tröð glymja,
- áðr út á mar mætir
- mannskæðr lagar tanna
- ræsinaðr til rausnar
- rak vébrautar Nökkva.