Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/10
Haraldur konungur fór út úr Þrándheimi og sneri suður á Mæri. Húnþjófur hét konungur er réð fyrir Mærafylki. Sölvi klofi er son hans. Þeir voru hermenn miklir. En sá konungur er réð fyrir Raumsdali er nefndur Nökkvi, móðurfaðir Sölva. Þessir höfðingjar drógu her saman er þeir spurðu til Haralds konungs og fara móti honum. Þeir hittust við Sólskel. Varð þar orusta mikil og hafði Haraldur konungur sigur.
Þessar orustu getur Hornklofi:
- Þar svo að barst að borði
- borðhölkvis, rak norðan,
- hlífar valdr til hildar,
- hregg, döglinga tveggja,
- og allsnæfrir jöfrar
- orðalaust að morði,
- endist rauðra randa
- rödd, dynskotum kvöddust.
Þar féllu báðir konungar en Sölvi komst við flótta undan. Lagði Haraldur konungur þá undir sig þessi tvö fylki og dvaldist þar lengi of sumarið og skipaði þar réttum með mönnum og setti þar forráðamenn og treysti sér fólkið. En of haustið bjóst hann að fara norður til Þrándheims.
Rögnvaldur Mærajarl sonur Eysteins glumru hafði þá of sumarið gerst maður Haralds konungs. Konungur setti hann höfðingja yfir fylki þessi tvö, Norð-Mæri og Raumsdal, og fékk honum þar styrk til, bæði af ríkismönnum og bóndum, svo og skipakost að verja landið fyrir ófriði. Hann var kallaður Rögnvaldur hinn ríki og hinn ráðsvinni og kalla menn að hvorttveggja væri sannnefni.
Haraldur konungur var um veturinn eftir í Þrándheimi.