Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/1
Höfundur: Snorri Sturluson
1. Upphaf Haralds konungs harðráða
Haraldur, sonur Sigurðar sýr, bróðir Ólafs konungs hins helga sammæðri, hann var á Stiklastöðum í orustu þá er hinn helgi Ólafur konungur féll. Varð Haraldur þá sár og komst í brott með öðrum flóttamönnum.
Svo segir Þjóðólfur:
- Hvasst frá eg Haugi hið næsta
- hlífél á gram drífa,
- en Bolgara brennir
- bræðr sínum vel tæði.
- Skildist hann og huldi
- hjálmsetr, gamall vetra
- tyggi tólf og þriggja,
- trauðr við Ólaf dauðan.
Rögnvaldur Brúsason flutti Harald úr orustu og kom honum til bónda nokkurs er bjó í skógi langt frá öðrum mönnum. Var Haraldur þar læknaður til þess er hann var heill. Síðan fylgdi sonur bónda honum austur um Kjöl og fóru þeir allt markleiði, það er svo mátti, en ekki alþýðuveg. Vissi bóndason ekki til hverjum hann fylgdi.
Og er þeir riðu milli eyðiskóga nokkurra þá kvað Haraldur þetta:
- Nú læt eg skóg af skógi
- skreiðast lítils heiðar.
- Hver veit nema eg verði
- víða frægr um síðir?
Hann fór austur um Jamtaland og Helsingjaland og svo til Svíþjóðar. Fann hann þar Rögnvald jarl Brúsason og mjög marga aðra þá menn er komist höfðu úr orustu, menn Ólafs konungs.