Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/18
Heimskringla - Haralds saga Sigurðarsonar
Höfundur: Snorri Sturluson
18. Félag Haralds konungs og Sveins Úlfssonar
Höfundur: Snorri Sturluson
18. Félag Haralds konungs og Sveins Úlfssonar
Haraldur fann þar Svein Úlfsson. Það haust hafði hann flúið fyrir Magnúsi konungi við Helganes. En er þeir fundust fagnaði hvor öðrum vel. Ólafur sænski Svíakonungur var móðurfaðir Ellisifjar, konu Haralds, en Ástríður móðir Sveins var systir Ólafs konungs. Gerðu þeir Haraldur og Sveinn félagsskap sinn og bundu einkamálum. Allir Svíar voru vinir Sveins því að hann átti þar hina stærstu ætt í landi. Gerðust þá og allir Svíar vinir Haralds og liðsinnismenn. Var þar mart stórmenni bundið í mægðum við hann.
Svo segir Þjóðólfur:
- Reist eikikjölr austan
- örðigt vatn úr Görðum.
- Svíar tæðu þér síðan,
- snjallr landreki, allir.
- Gekk með gulli miklu,
- glygg féll ótt um tyggja,
- höll á hléborð sollin
- Haralds skeið und vef breiðum.