Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/3

Heimskringla - Haralds saga Sigurðarsonar
Höfundur: Snorri Sturluson
3. Frá Haraldi Sigurðarsyni


Þá réð fyrir Grikklandi Zóe drottning hin ríka og með henni Mikjáll katalaktus.

En er Haraldur kom til Miklagarðs á fund drottningar þá gekk hann þar á mála og fór þegar um haustið á galeiður með hermönnum þeim er fóru út í Grikklandshaf. Hélt Haraldur sveit af sínum mönnum. Þá var höfðingi yfir herinum sá maður er nefndur er Gyrgir. Hann var frændi drottningar.

En er Haraldur hafði litla hríð verið í herinum, áður en Væringjar þýddust mjög til hans, og fóru þeir allir saman þegar er bardagar voru. Kom þá svo að Haraldur gerðist höfðingi yfir öllum Væringjum. Fóru þeir Gyrgir víða um Grikklandseyjar, unnu þar herskap mikinn á kussurum.