Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/60

Heimskringla - Haralds saga Sigurðarsonar
Höfundur: Snorri Sturluson
60. Útboð Haralds konungs


Þann vetur bauð Haraldur konungur út leiðangri, almenning úr Noregi. En er voraði dróst her mikill saman. Þá lét Haraldur konungur setja út skip það hið mikla á ána Nið. Síðan lét hann upp setja drekahöfuðin.

Þá kvað Þjóðólfur skáld:

Skeið sá eg fram að flóði,
fagrt sprund, úr á hrundið.
Kenndu hvar liggr fyr landi
löng súð drekans prúða.
Orms glóar fax of farmi
fráns síst ýtt var hánum,
báru búnir svírar
brunnið gull, af hlunni.

Síðan býr Haraldur konungur skip það og ferð sína. En þá er hann var búinn hélt hann út úr ánni skipinu. Þar var vandaður róður mjög.

Svo segir Þjóðólfur:

Slyngr laugardag löngu
lið-Baldr af sér tjaldi,
út þar er ekkjur líta
orms súð úr bæ prúðar.
Vestr réð úr Nið næsta
nýri skeið að stýra
ungr, en árar drengja,
allvaldr, í sjá falla.
Rétt kann ræði slíta
ræsis herr úr verri.
Ekkjan stendr og undrast
áraburð sem furðu.
Ört mun, snót, áðr sortað
sjáfang í tvö gangi.
Þöll leggr við frið fullan,
ferkleyfa það leyfi.
Sorgar veit áðr slíti
sjáföng úr mar ströngum
herr, þar er heldr til varra
hár sjö tugum ára.
Norðmeðr róa naðri
negldum straum hinn heglda
út, er sem innan líti
arnar væng, með járni.

Haraldur konungur hélt herinum suður með landi og hafði úti almenning að liði og skipum. En er þeir sækja austur í Víkina fengu þeir andviðri stór og lá herinn víða í höfnum, bæði við úteyjar og inn í fjörðum.

Svo segir Þjóðólfur:

Eiga skjól und skógi
skafnir snekkju stafnar.
Læsir leiðangrs vísi
lönd herskipa bröndum.
Almenningr liggr innan,
eið láta sér skeiðar
hábrynjaðar hlýja,
hverja vík í skerjum.

En í stórviðrum þeim er á lögðust þá þurfti hið mikla skip góðra grunnfæra.

Svo segir Þjóðólfur:

Hléseyjar lemr hávan
hryngarð konungr barði.
Neytir þá til þrautar
þengill snekkju strengja.
Eigi er járni bjúgu
indæll skaði lindis.
Gnegr af gaddi fögrum
grjót og veðr hin ljótu.

En er byr gaf hélt Haraldur konungur herinum austur til Elfar og kom þar að kveldi dags.

Svo segir Þjóðólfur:

Haraldr þeysti nú hraustla
helming sinn að Elfi.
Náttar Noregs drottinn
nær að landamæri.
Gramr á þing við Þumla.
Þar er eindagaðr Sveini,
hrafni skyldr, nema haldi,
hans fundr, Danir undan.