Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/61
En er Danir spyrja að Norðmannaher var kominn þá flýja allir þeir er því koma við. Norðmenn spyrja að Danakonungur hefir og úti her sinn og liggur hann suður um Fjón og um Smálönd.
En er Haraldur konungur spurði að Sveinn konungur vildi eigi halda stefnulag við hann eða orustu sem mælt var þá tók hann það ráð enn sem fyrr, lét aftur fara bóndaliðið og skipaði hálft annað hundrað skipa. Hélt hann síðan liði því suður fyrir Halland og herjaði víða. Hann lagði herinum í Lófufjörð og herjaði þar á land upp.
Litlu síðar kom að þeim þar Sveinn konungur með Danaher. Hann hafði þrjú hundruð skipa. En er Norðmenn sáu herinn þá lét Haraldur konungur blása saman herinum. Mæltu það margir að þeir skyldu flýja og sögðu að ófært væri að berjast.
Konungur svarar svo: „Fyrr skal hver vor falla um þveran annan en flýja.“
Svo segir Steinn Herdísarson:
- Sagði hitt er hugði
- hauklyndr vera mundu:
- Þar kvað þengill eirar
- þrotna von frá honum.
- Heldr kvað hvern vorn skyldu
- hilmir frægr en vægja,
- menn brutu upp, um annan,
- öll vopn, þveran falla.
Síðan lét Haraldur konungur skipa her sínum til framlögu. Lagði hann dreka sinn hinn mikla fram í miðju liði.
Svo segir Þjóðólfur:
- Lét vingjafa veitir,
- varghollr, dreka skolla
- lystr fyr leiðangrs brjósti,
- liðs oddr var það, miðju.
Það skip var allvel skipað og fjölmennt á.
Svo segir Þjóðólfur:
- Fast bað fylking hrausta
- friðvandr jöfur standa.
- Hamalt sýndist mér hömlur
- hildings vinir skilda.
- Ramsyndan lauk röndum
- ráðandi manndáða
- nýtr fyr Nissi utan
- naðr, svo hver tók aðra.
Úlfur stallari lagði sitt skip á annað borð konungsskipinu. Hann mælti við sína menn að þeir skyldu vel fram leggja skipið. Steinn Herdísarson var á skipi Úlfs.
Hann kvað:
- Hét á oss þá er úti,
- Ulfr, hákesjur skulfu,
- róðr var greiddr á græði,
- grams stallari, alla.
- Vel bað skip með skylja
- skeleggjaðr fram leggja
- sitt, en seggir játtu,
- snjalls landreka spjalli.
Hákon jarl Ívarsson lá ystur í arminn annan og fylgdu honum mörg skip og var það lið allvel búið. En yst í annan arminn lágu Þrændahöfðingjar. Var þar og mikill her og fríður.