Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/89

Heimskringla - Haralds saga Sigurðarsonar
Höfundur: Snorri Sturluson
89. Frá fylking Haralds konungs


Síðan fylkti Haraldur konungur liði sínu, lét fylkingina langa og ekki þykkva. Þá beygði hann armana aftur á bak svo að saman tóku. Var það þá víður hringur og þykkur og jafn öllum megin utan, skjöldur við skjöld og svo fyrir ofan, en konungssveitin var fyrir innan hringinn og þar merki. Það var valið lið. Í öðrum stað var Tósti jarl með sína sveit. Hafði hann annað merki. Var því svo fylkt að konungur vissi að riddarar voru vanir að ríða á riðlum og þegar aftur.

Nú segir konungur að hans sveit og jarls sveit skal þar fram ganga sem mest þarf „en bogmenn vorir skulu og þar vera með oss en þeir er fremstir standa skulu setja spjótshala sína í jörðina en setja oddana fyrir brjóst riddurum ef þeir ríða að oss en þeir er næstir standa setji þeir sína spjótsodda fyrir brjóst hestum þeirra.