Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/90

Heimskringla - Haralds saga Sigurðarsonar
Höfundur: Snorri Sturluson
90. Frá Harald konungi Guðinasyni


Haraldur konungur Guðinason var þar kominn með her óvígjan, bæði riddara og fótgangandi menn. Haraldur konungur Sigurðarson reið þá um fylking sína og skynjaði hvernig fylkt var. Hann sat á svörtum hesti blesóttum. Hesturinn féll undir honum og konungur af fram.

Stóð hann upp skjótt og mælti: „Fall er fararheill.“

Þá mælti Haraldur Englakonungur til Norðmanna þeirra er með honum voru: „Kennduð þér þann hinn mikla mann er þar féll af hestinum við hinn blá kyrtil og hinn fagra hjálm?“

„Þar er konungur sjálfur,“ sögðu þeir.

Englakonungur segir: „Mikill maður og ríkmannlegur og er vænna að farinn sé að hamingju.“