Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/95

Heimskringla - Haralds saga Sigurðarsonar
Höfundur: Snorri Sturluson
95. Frá Vilhjálmi bastarði


Vilhjálmur bastarður Rúðujarl spurði andlát Játvarðar konungs frænda síns og það með að þá var til konungs tekinn í Englandi Haraldur Guðinason og hafði tekið konungsvígslu. En Vilhjálmur þóttist betur til kominn til ríkis í Englandi en Haraldur fyrir frændsemis sakir þeirra Játvarðar konungs. Það var og með að hann þóttist eiga að gjalda Haraldi svívirðing er hann hafði slitið festamálum við dóttur hans. Og af öllu þessu saman dró Vilhjálmur her saman í Norðmandí og hafði allmikið fjölmenni og gnógan skipakost.

Þann dag er hann reið úr borginni til skipa sinna og hann var kominn á hest sinn þá gekk kona hans til hans og vildi tala við hann. En er hann sá það þá laust hann til hennar með hælinum og setti sporann fyrir brjóst henni svo að á kafi stóð. Féll hún og fékk þegar bana en jarl reið til skips.

Fór hann með herinum út til Englands. Þar var með honum Ótta biskup bróðir hans. En er jarl kom til Englands þá herjaði hann og lagði undir sig landið hvar sem hann fór. Vilhjálmur var hverjum manni meiri og sterkari og góður riddari, hinn mesti hermaður og allgrimmur, hinn vitrasti maður og kallaður ekki tryggur.