Heimskringla/Haralds saga gráfeldar/15

Heimskringla - Haralds saga gráfeldar
Höfundur: Snorri Sturluson
15. Fall Grjótgarðs

Haraldur konungur gráfeldur og Guðröður konungur bróðir hans draga saman her mikinn austan úr landi og héldu liði því norður til Þrándheims.

En er það spyr Hákon jarl þá safnaði hann liði að sér og hélt suður á Mæri og herjar. Þar var þá Grjótgarður, föðurbróðir hans, og skyldi hafa landvörn af Gunnhildarsonum. Hann bauð her út svo sem konungar höfðu orð til sent. Hákon jarl hélt til fundar við hann og til bardaga. Þar féll Grjótgarður og tveir jarlar með honum og mart lið annað.

Þessa getur Einar skálaglamm:

Hjálmgrápi vann hilmir
harðr, Lofts vinar, barða,
því kom vöxtr í Vínu
vínheims, fjandr sína,
og forsnjallir féllu
fúrs í Þróttar skúrum,
þat fær þjóðar snytri,
þrír jarlssynir, tírar.

Síðan sigldi Hákon jarl út til hafs og svo útleið suður með landi. Hann kom fram suður í Danmörk, fór þá á fund Haralds Gormssonar Danakonungs, fær þar góðar viðtökur, dvaldist með honum um veturinn.

Þar var og með Danakonungi maður sá er Haraldur hét. Hann var sonur Knúts Gormssonar, bróðursonur Haralds konungs. Hann var kominn úr víking, hafði lengi herjað og fengið óf lausafjár. Hann var kallaður Gull-Haraldur. Hann þótti vel til kominn að vera konungur í Danmörk.