Heimskringla/Haralds saga gráfeldar/16

Heimskringla - Haralds saga gráfeldar
Höfundur: Snorri Sturluson
16. Fall Erlings konungs

Haraldur konungur og þeir bræður héldu liði sínu norður til Þrándheims og fengu þar enga mótstöðu, tóku þar skatt og skyld og allar konungstekjur og létu bændur gjalda stór gjöld því að konungar höfðu þá langa hríð lítið fé fengið úr Þrándheimi er Hákon jarl hafði þar setið með fjölmenni miklu og átt ófrið við konunga.

Um haustið fór Haraldur konungur suður í land með það lið flest er þar átti heimili en Erlingur konungur sat þar eftir með sínu liði. Hann hafði þá enn miklar krafir við bændur og gerði harðan rétt þeirra en bændur kurruðu illa og báru eigi vel skaða sinn.

Og um veturinn söfnuðust bændur saman og fá lið mikið, stefna síðan að Erlingi konungi þar sem hann var á veislu og halda við hann orustu. Féll Erlingur konungur þar og mikil sveit manna með honum.

Þá er Gunnhildarsynir réðu fyrir Noregi gerðist hallæri mikið og var því meira að sem þeir höfðu lengur verið yfir landi. En búendur kenndu það konungum og því með að konungar voru fégjarnir og varð harður réttur bónda. Svo kom um síðir að nálega missti landsfólkið víðast korns og fiska. Á Hálogalandi var svo mikill sultur og seyra að þar óx nálega ekki korn en snjár lá þá á öllu landi að miðju sumri og bú allt inn bundið.

Svo kvað Eyvindur skáldaspillir, hann kom út og dreif mjög:

Snýr á Svölnis váru.
Svo höfum inn sem Finnar
birkihind um bundið
brums að miðju sumri.

Eyvindur orti drápu um alla Íslendinga en þeir launuðu svo að hver bóndi gaf honum skattpening. Sá stóð þrjá peninga silfurs vegna og hvítur í skor.

En er silfrið kom fram á alþingi þá réðu menn það af að fá smiða til og skíra silfrið. Síðan var ger af feldardálkur en þar af var greitt smíðarkaupið. Þá stóð dálkurinn fimm tigu marka. Hann sendu þeir Eyvindi en Eyvindur lét höggva í sundur dálkinn og keypti sér bú með.

Þá kom og þar um vor við útver nokkur broddur af síld. Eyvindur skipaði róðrarferju húskörlum sínum og landsbúum og reri þannug til sem síldin var rekin.

Hann kvað:

Látum langra nóta
lögsóta verfótum
að spáþernum sporna
sporðfjöðruðum norðan,
vita ef akrmurur jökla,
öl-Gerðr, falar verði,
ítr, þær er upp um róta
unnsvín, vinum mínum.

Og svo vendilega var upp gengið allt lausafé hans er hann hafði keypt til bús sér að hann keypti síldina með bogaskoti sínu.

Hann kvað:

Fengum feldarstinga
fjörð og galt við hjörðu,
þann er álhimins utan
oss lendingar sendu.
Mest seldi eg mínar
við mæörum sævar,
hallærið veldr hvoru,
hlaupsíldr Egils gaupna.