Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/1

Heimskringla - Magnúss saga Erlingssonar
Höfundur: Snorri Sturluson
1. Upphaf Magnúss konungs Erlingssonar


Síðan er Erlingur varð þess vís hver ráðagerð þeirra Hákonar var þá sendi hann boð öllum höfðingjum, þeim er hann vissi að trúnaðarvinir höfðu verið Inga konungs, og svo hirðsveitinni og handgengnum mönnum konungs, þeim er undan höfðu komist, og húskörlum Gregoríusar og gerði þeim stefnulag. En er þeir fundust og áttu tal sitt þá réðst það þegar að þeir skyldu halda saman flokkinum og bundu þeir það fastmælum milli sín. Síðan töluðu þeir hvern þeir skyldu til konungs taka. Þá talaði Erlingur skakki, leitaði ef það væri ráð höfðingja eða annarra lendra manna að tekinn væri til konungs sonur Símonar skálps, dótturson Haralds konungs gilla, en Jón Hallkelsson byndist fyrir flokkinn. Jón mæltist undan. Var þá leitað við Nikulás Skjaldvararson, systurson Magnúss konungs berfætts, ef hann vildi gerast höfðingi fyrir flokkinum. Hann svaraði á þá lund að það væri hans ráð að taka þann til konungs er af konungaætt væri kominn en þann til ráða fyrir flokkinn er vænn væri til vits, lét mundu betra verða til liðs. Var leitað við Árna konungsmág ef hann vildi láta taka til konungs nokkurn sona sinna, bræðra Inga konungs.

Hann svaraði því að sonur Kristínar, dótturson Sigurðar konungs, væri best ættborinn til konungdóms í Noregi: „Er þar,“ segir hann, „sá maður til forráða með honum er skylda ber til að vera forsjámaður fyrir honum og ríkinu, er Erlingur er faðir hans, maður vitur, harðráður og reyndur mjög í orustum og landráðamaður góður. Mun hann eigi skorta til þessa ráðs framkvæmd ef höfðingjar fylgja.“

Tóku margir vel undir þetta ráð.

Erlingur svarar: „Svo heyrist mér til sem þeir séu flestir er þessa máls er leitað við er heldur færist undan að taka upp vandann. Nú sýnist mér jafnvíst þótt vér hefjum þetta mál, hvort heldur er að tignin fæst þeim, er fyrir beitist flokkinum, eða verður hinn veg, sem áður hefir nú mjög mörgum farið þeim er slík stórræði hafa upp tekið, að fyrir það hafa týnt allri eigunni og þar með lífinu. En ef framgangurinn verður að þessu máli þá má vera að þeir séu nokkurir er vildu þenna kost hafa tekið. Mun sá þess þurfa, er gengur í þenna vanda, að setja rammlegar skorður við að eigi sæti hann þá mótgangi eða fjandskap af þeim er nú eru í þessu ráði.“

Allir játtu því að gera þetta samband með fullum trúnaði.

Erlingur mælti: „Það er frá mér að segja að næst þykir mér það bana mínum að þjóna Hákoni og þótt mér þyki þetta hið háskasamlegsta þá vil eg heldur til þess hætta að láta yður fyrir sjá og mun eg taka við forráðum flokksins ef það er allra yðarra ráð og fýsi og viljið þér allir binda þetta með svardögum.“

Allir játtu því og var á þeirri stefnu það ráðið að þeir skyldu Magnús Erlingsson til konungs taka. Síðan áttu þeir þing í býnum og á því þingi var Magnús til konungs tekinn yfir land allt. Þá var hann fimm vetra gamall. Síðan gengu til handa honum allir menn er þar voru, er höfðingjar höfðu verið Inga konungs, og hafði hver þeirra slíkar nafnbætur sem áður hafði haft með Inga konungi.