Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/2

Heimskringla - Magnúss saga Erlingssonar
Höfundur: Snorri Sturluson
2. Ferð Magnúss konungs til Danmerkur


Erlingur skakki byrjaði ferð sína og réð sér til skipa og hafði með sér Magnús konung og alla handgengna menn þá er þar voru. Þar var í för Árni konungsmágur og Ingiríður, móðir Inga konungs, og synir hennar tveir og Jón kútissa, sonur Sigurðar storks, og húskarlar Erlings og svo þeir er verið höfðu húskarlar Gregoríusar og höfðu alls tíu skip. Þeir fóru suður til Danmerkur á fund Valdimars konungs og þeirra Búriss Heinrekssonar, bróður Inga konungs. Valdimar konungur var frændi, skyldur Magnúss konungs. Þær voru systur, dætur Haralds konungs úr Görðum austan, hann var sonur Valdimars Jarisleifssonar, Ingilborg, móðir Valdimars konungs, og Málmfríður, móðir Kristínar móður Magnúss konungs.

Valdimar konungur tók vel við þeim og voru þeir Erlingur löngum á stefnum og ráðagerðum og kom það upp af tali þeirra að Valdimar konungur skyldi veita styrk Magnúsi konungi allan af sínu ríki, þann er hann þyrfti til þess að eignast Noreg og halda síðan, en Valdimar skyldi hafa það ríki í Noregi sem haft höfðu hinir fyrri frændur hans, Haraldur Gormsson og Sveinn tjúguskegg: Víkina alla norður til Rýgjarbits. Var þessi ráðagerð bundin eiðum og einkamálum. Síðan búa þeir Erlingur ferð sína af Danmörk og sigldu út af Vendilskaga.