Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/30

Heimskringla - Magnúss saga Erlingssonar
Höfundur: Snorri Sturluson
30. Tal Valdimars konungs og Erlings


Það var eitt sinn er þeir töluðu Valdimar konungur og Erlingur.

Mælti Erlingur: „Herra, það þykir mér líkast til sætta að þér hafið allt það af Noregi sem yður var heitið í einkamálum vorum. En ef svo er, hvern höfðingja viljið þér yfir setja þar, hvort nokkurn danskan? Nei,“ segir hann, „engir Danahöfðingjar munu fara vilja í Noreg og fást þar við hart fólk og óhlýðið en hafa hér áður ærið gott með yður. Eg fór fyrir þá sök hingað að eg vil fyrir engan mun missa yðarrar vináttu. Hingað til Danmerkur hafa fyrr farið menn af Noregi, Hákon Ívarsson og Finnur Árnason, og gerði Sveinn konungur, frændi yðar, hvorntveggja þeirra jarl sinn. Eigi em eg nú minni valdsmaður í Noregi en þeir voru þá og gaf konungur þeim yfirsókn á Hallandi, því ríki er hann átti áður. Nú þykir mér, herra, þér vel mega unna mér þess lands, ef eg gerist yðar maður handgenginn, að eg haldi af yður þessu ríki. Svo og Magnús konungur sonur minn má og eigi mér þess synja en eg vil við yður vera skeyttur og skyldur til allrar þjónustu þeirrar er því nafni byrjar.“

Slíkt talaði Erlingur og annað þessu líkt og kom svo að lyktum að Erlingur gerðist handgenginn Valdimar konungi en konungur leiddi Erling til sætis og gaf honum jarldóm og Víkina til léns og yfirsóknar. Þá fór Erlingur heim til Noregs og var síðan jarl meðan hann lifði og hélst í sætt við Danakonung jafnan síðan.

Erlingur átti fjóra frillusonu. Einn hét Hreiðar, annar Ögmundur, þeir voru sér um móður, þriðji Finnur, fjórði Sigurður. Þeirra móðir var Ása hin ljósa. Þeir voru yngri. Kristín konungsdóttir og Erlingur áttu dóttur er Ragnhildur hét. Hún var gift Jóni Þorbergssyni af Randabergi. Kristín fór af landi með þeim manni er Grímur rusli var kallaður. Þau fóru út í Miklagarð og voru þar um hríð og áttu þau börn nokkur.