Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/31
Ólafur, sonur Guðbrands Skafhöggssonar og sonur Maríu Eysteinsdóttur konungs Magnússonar, var að fóstri með Sigurði agnhött á Upplöndum. En er Erlingur var í Danmörk þá hófu þeir fóstrar flokk, Ólafur og Sigurður, og réðust til margir Upplendingar. Var þar Ólafur til konungs tekinn. Þeir fóru með flokkinn um Upplönd en stundum í Víkina, stundum austur á Markir. Ekki voru þeir á skipum.
En er Erlingur jarl spurði til flokks þessa þá fór hann liði sínu í Víkina og var á skipum um sumarið og um haustið í Ósló og veitti þar um jólin. Hann lét halda njósnum upp á landið til flokksins og fór sjálfur upp á land að leita þeirra og með honum Ormur konungsbróðir. En er þeir komu til vatns þess er heitir ... þá tóku þeir skip öll þau er voru við vatnið.