Heimskringla/Magnúss saga berfætts/23

Heimskringla - Magnúss saga berfætts
Höfundur: Snorri Sturluson
23. Hernaður á Írlandi


Magnús konungur byrjar ferð sína af landi og hafði her mikinn. Þá hafði hann verið konungur í Noregi níu vetur. Þá fór hann vestur um haf og hafði hið fríðasta lið er til var í Noregi. Honum fylgdu allir ríkismenn er voru í landinu, Sigurður Hranason, Víðkunnur Jónsson, Dagur Eilífsson, Serkur úr Sogni, Eyvindur ölbogi stallari konungs, Úlfur Hranason bróðir Sigurðar og margir aðrir ríkismenn. Fór konungur með þessu liði öllu vestur til Orkneyja og hafði þaðan með sér sonu Erlends jarls, Magnús og Erling.

Þá sigldi hann til Suðureyja og er hann lá við Skotland þá hljóp Magnús Erlendsson um nótt af skipi konungs og lagðist til lands, fór síðan upp í skóg og kom fram í hirð Skotakonungs.

Magnús konungur hélt liðinu til Írlands og herjaði þar. Þá kom Mýrjartak konungur til liðs við hann og unnu þeir mikið af landinu, Dyflinn og Dyflinnarskíri, og var Magnús konungur um veturinn uppi á Kunnöktum með Mýrjartak konungi en setti menn sína til landsgæslu þar er hann hafði unnið. En er voraði fóru konungarnir með her sinn vestur á Úlastír og áttu þar orustur margar og unnu landið og höfðu unnið mestan hluta af Úlastír. Þá fór Mýrjartak heim á Kunnaktir.