Heimskringla/Magnúss saga berfætts/24
Magnús konungur bjó þá skip sín og ætlaði austur til Noregs. Hann setti menn sína til gæslu í Dyflinni. Hann lá við Úlastír öllu liði sínu og voru seglbúnir. Þeir þóttust þurfa strandhöggva og sendi Magnús konungur sína menn til Mýrjartaks konungs að hann skyldi senda honum strandhögg, og kvað á dag að koma skyldi, hinn næsta fyrir Barthólómeusmessu ef sendimenn væru heilir. En messudagsaftaninn voru þeir eigi komnir.
En messudaginn þá er sól rann upp gekk Magnús konungur á land með mestum hluta liðs síns og gekk upp frá skipum, vildi leita eftir mönnum sínum og strandhöggvi. Veður var vindlaust og sólskin. Leiðin lá yfir mýrar og fen og voru þar höggnar yfir klappir en kjarrskógar við tveggja vegna. Þá er þeir sóttu fram varð fyrir þeim leiti mjög hátt. Þaðan sáu þeir víða. Þeir sáu jóreyk mikinn upp á landið, ræddu þá milli sín hvort það mundi vera her Íra en sumir sögðu að þar mundu vera menn þeirra með strandhöggvi. Námu þeir þar stað.
Þá mælti Eyvindur ölbogi: „Konungur,“ segir hann, „hverja ætlan hefir þú á ferð þessi? Óvarlega þykir mönnum þú fara. Veistu að Írar eru sviksamir. Ætla nú ráð nokkuð fyrir liði yðru.“
Þá mælti konungur: „Fylkjum nú liði voru og verum við búnir ef þetta eru svik.“
Var þá fylkt. Gekk konungur og Eyvindur fyrir fylkingunni. Hafði Magnús konungur hjálm á höfði og rauðan skjöld og lagt á með gulli leó, gyrður sverði því er Leggbítur var kallað, tannhjaltað og gulli vafiður meðalkaflinn, hið besta vopn. Hann hafði kesju í hendi. Hann hafði silkihjúp rauðan yfir skyrtu og skorið fyrir og á bak leó með gulu silki. Og var það mál manna að eigi hefði séð skörulegra mann eða vasklegra. Eyvindur hafði og silkihjúp rauðan og með sama hætti sem konungur. Var hann og mikill maður og fríður og hinn hermannlegsti.