Heimskringla/Magnúss saga blinda og Haralds gilla/8


Haraldur konungur átti þá stefnur við ráðuneyti sitt og beiddi þá ráðagerðar með sér. Og að lyktum þeirrar stefnu fengust þeir úrskurðir að taka Magnús svo frá ríki að hann mætti eigi kallast konungur þaðan í frá. Var hann þá seldur í hendur konungsþrælum en þeir veittu honum meiðslur, stungu út augu hans og hjuggu af annan fót en síðast var hann geltur. Ívar Össurarson var blindaður. Hákon faukur var drepinn.

Eftir þetta lagðist land allt undir ríki Haralds konungs. Gerðist þá mjög eftir leitað hverjir mestir höfðu verið vinir Magnúss konungs eða hverjir mest mundu vita féhirslur hans eða gersemar. Krossinn helga hafði Magnús haft með sér síðan er Fyrileifarorusta hafði verið og vildi hann ekki til segja hvar þá var kominn.

Reinaldur biskup í Stafangri var enskur og fégjarn mjög kallaður. Hann var kær vinur Magnúss konungs og þótti mönnum það líklegt að honum mundu fengin til varðveislu stórfé og dýrgripir. Voru menn sendir eftir honum og kom hann til Björgynjar. Voru þá kennsl þessi borin á hendur honum en hann synjaði og bauð skírslur fyrir. Haraldur vildi ekki það. Hann lagði á biskup að gjalda sér fimmtán merkur gulls. Biskup sagði að hann vill eigi svo vesla stað sinn, vill heldur hætta lífi sínu. Síðan hengdu þeir Reinald biskup út í Hólmi við valslönguna.

En er hann gekk til gálgans hristi hann bótann af fæti sér og mælti og sór um: „Eigi veit eg meira fé Magnúss konungs en það sem þar er í bótanum.“

Þar var í einn gullhringur. Reinaldur biskup var jarðaður í Norðnesi að Mikjálskirkju og var þetta verk mjög lastað.

Síðan var Haraldur einn konungur yfir Noregi meðan hann lifði.