Heimskringla/Magnúss saga blinda og Haralds gilla/7


Haraldur konungur hét á hinn helga Ólaf konung til sigurs sér, að láta gera Ólafskirkju þar í býnum með sínum eins kostnaði.

Magnús konungur setti fylking sína út í Kristskirkjugarði en Haraldur reri fyrst að Norðnesi. En er þeir Magnús konungur sáu það sneru þeir inn í býinn og inn í vogsbotn. En er þeir fóru inn um stræti þá hljópu margir býjarmenn inn í garða og til heimilis síns en þeir er yfir gengu á völluna hljópu á hersporana. Þá sáu þeir Magnús að Haraldur hafði róið öllu liðinu yfir í Hegravík og gengu þar upp á bakka fyrir ofan býinn. Þá sneri Magnús konungur út eftir stræti. Flýði þá liðið frá honum, sumt í fjallið upp, sumt upp um Nunnusetur, sumt í kirkjur eða falst í öðrum stöðum. Magnús konungur gekk út á skip sitt en þeim var engi kostur brott að fara þar er járnrekendur gættu fyrir utan. Fylgdi og fátt manna konungi. Voru þeir fyrir því til einskis færir.

Svo segir Einar Skúlason í Haraldsdrápu:

Luku vog viku,
vara kostr fara
brýns, Björgynjar,
braut háskrautum.

Litlu síðar komu menn Haralds konungs út á skipin. Var þá handtekinn Magnús konungur en hann sat aftur í fyrirrúmi á hásætiskistu og með honum Hákon faukur móðurbróðir hans, hinn vænsti maður og kallaður eigi vitur, og Ívar Össurarson og margir aðrir vinir hans voru þá handteknir en sumir þegar drepnir.