Heimskringla/Magnúss saga góða/8

Sighvatur kom heim í Noreg. Hann átti bú og börn í Þrándheimi. Fór hann sunnan fyrir land á byrðingi. En er þeir lágu í Hillarsundi þá sáu þeir hvar hrafnar margir flugu.

Sighvatur kvað:

Hrafna sé eg til hafnar,
hræs minnast þeir, sinna,
þar er flaut und nið nýtum
Norðmanna skip forðum.
Gjalla hátt fyr Hillar
hvern dag frekir ernir,
endr þeir er Ólafr grenndi,
innan, mörgu sinni.

En er Sighvatur kom norður til Kaupangs þá var þar Sveinn konungur og bauð Sighvati að fara til sín því að hann hafði verið fyrr með Knúti hinum ríka föður Sveins konungs. Sighvatur segir að hann vill fara heim til bús síns.

Það var einn dag er Sighvatur gekk út á stræti. Hann sá hvar konungsmenn léku.

Sighvatur kvað:

Geng eg um þvert frá þengils,
þróast ekki mér, rekka,
em eg sem bast, í brjósti,
bleikr, verðungar leiki.
Minnumst eg, hvar manna
minn drottinn lék sinna
oft á óðalstóftum
orðsæll og var forðum.

Síðan fór hann til bús síns. Hann heyrði marga menn ámæla sér og segja að hann hefði hlaupist frá Ólafi konungi.

Sighvatur kvað:

Hafa láti mig heitan
Hvíta-Kristr að víti
eld, ef eg Ólaf vildi,
em eg skírr um það, firrast.
Vatnærin hefi eg vitni,
vask til Rúms í háska,
öld leyni eg því aldri,
annarra þau manna.

Sighvatur undi illa heima. Hann gekk úti um dag og kvað:

Há þótti mér hlæja
höll, um Noreg allan,
fyrr var eg kenndr á knörrum,
klif, meðan Ólafr lifði.
Nú þykir mér miklu,
mitt stríð er svo, hlíðir,
jöfurs hylli varð eg alla,
óblíðari síðan.

Sighvatur fór öndverðan vetur austur um Kjöl til Jamtalands og þá til Helsingjalands og kom fram í Svíþjóð og fór þegar til Ástríðar drottningar og var með henni í góðu yfirlæti langa hríð. Og var hann og með Önundi konungi bróður hennar og þá af honum tíu merkur brenndar. Svo segir í Knútsdrápu.

Sighvatur spurði oftlega er hann fann kaupmenn, Hólmgarðsfara, hvað þeir kynnu segja honum til Magnúss Ólafssonar.

Hann kvað:

Enn lystir mig austan,
erut um spörð, úr Görðum
frá öðlingi ungum,
oft byrjuð lof, spyrja.
Frétti eg smás, þó að smæstir,
smugulir ástarfuglar,
þinig ljúgumst fór, fljúgi,
fylkis niðs, á miðli.