Heimskringla/Magnússona saga/17


Sigurður konungur var mikill vexti og jarpur á hár, skörulegur, ekki fagur, vel vaxinn, snöfurlegur, fámæltur og oftast ekki þýður, vingóður og fastúðigur, ekki talaður mjög, siðlátur og veglátur. Sigurður konungur var stjórnsamur og refsingasamur, hélt vel lögin, mildur af fé, ríkur og ágætur.

Ólafur konungur var maður hár og mjór, fríður sýnum, glaður og lítillátur, vinsæll.

Þá er þeir bræður voru konungar í Noregi tóku þeir af margar álögur þær er Danir höfðu lagt á lýðinn þá er Sveinn Alfífuson réð landi og urðu þeir af því stórum vinsælir við alþýðu og stórmenni.