Heimskringla/Saga Inga konungs og bræðra hans/17
Höfundur: Snorri Sturluson
17. Útferð Erlings og Rögnvalds jarls
Erlingur hét sonur Kyrpinga-Orms og Ragnhildar dóttur Sveinka Steinarssonar. Kyrpinga-Ormur var sonur Sveins Sveinssonar Erlendssonar úr Gerði. Móðir Orms var Ragna dóttir Orms jarls Eilífssonar og Ingibjargar dóttur Finns jarls Árnasonar. Móðir Orms jarls var Ragnhildur dóttir Hákonar jarls hins ríka. Erlingur var vitur maður og var vinur mikill Inga konungs og með hans ráði fékk Erlingur Kristínar dóttur þeirra Sigurðar konungs og Málmfríðar drottningar. Erlingur átti bú á Stuðlu á Sunn-Hörðalandi.
Erlingur fór úr landi og með honum Eindriði ungi og enn fleiri lendir menn og höfðu frítt lið. Þeir bjuggust til Jórsalaferðar og fóru vestur um haf til Orkneyja. Þaðan fór Rögnvaldur jarl er kali var kallaður og Vilhjálmur biskup. Þeir höfðu alls af Orkneyjum fimmtán langskip og sigldu til Suðureyja og þaðan vestur til Vallands og þá leið síðan er farið hafði Sigurður konungur Jórsalafari út til Nörvasunda og herjuðu víða út um Spán heiðna. Litlu síðar en þeir sigldu um sundin skildist brott Eindriði ungi og þeir er honum fylgdu með sex skipum og fóru síðan sér hvorir.
En Rögnvaldur og Erlingur skakki hittu á drómund einn í hafi og lögðu til níu skipum og börðust við þá. En að lyktum lögðu þeir snekkjurnar undir drómundinn. Báru þá heiðnir menn ofan á þá bæði vopn og grjót og grýtur fullar af vellanda biki og viðsmjörvi. Erlingur lá sínu skipi næst þeim og bar fyrir utan það skipið vopnaburðinn heiðinna manna. Þá hjuggu þeir Erlingur raufar á drómundinum, sumar í kafi niðri, sumar uppi á borðunum svo að þeir fóru þar inn.
Svo segir Þorbjörn Skakkaskáld í Erlingsdrápu:
- Hjuggu öxareggjum
- ugglaust hvatir glugga,
- því var nennt, á nýju
- Norðmenn í kaf borði.
- Eyðendr sáu yðrar
- arnar hungrs á járnum
- vogfylvingi vélar.
- Vígskörð ofan börðuð.
Auðun rauði hét sá maður, stafnbúi Erlings, er fyrst gekk upp á drómundinn. Þeir unnu drómundinn og drápu þar ógrynni manna, tóku þar ófa mikið fé og unnu þar fagran sigur.
Rögnvaldur jarl og Erlingur skakki komu í þeirri ferð til Jórsalalands og út til árinnar Jórdanar, sneru þá aftur fyrst til Miklagarðs, létu þar eftir skip sín, fóru utan landveg og héldu heilu öllu þar til er þeir komu í Noreg og var þeirra ferð allmjög lofuð.
Þótti Erlingur nú miklum meiri maður en áður, hvorttveggja af ferð sinni og kvonfangi sínu. Var hann og spekingur að viti, auðigur og ættstór, snjallmæltur og var mest hallur að allri vináttu til Inga þeirra bræðra.