Heimskringla/Ynglinga saga/11

Heimskringla - Ynglinga saga
Höfundur: Snorri Sturluson
11. Dauði Fjölnis konungs

Fjölnir sonur Yngvifreys réð þá fyrir Svíum og Uppsalaauð. Hann var ríkur og ársæll og friðsæll. Þá var Frið-Fróði að Hleiðru. Þeirra í millum var heimboð og vingan. Þá er Fjölnir fór til Fróða á Selund þá var þar fyrir búin mikil veisla og boðið til víða um lönd.

Fróði átti mikinn húsabæ. Þar var gert ker mikið margra alna hátt og okað með stórum timburstokkum. Það stóð í undirskemmu en loft var yfir uppi og opið gólfþilið svo að þar var niður hellt leginum en kerið blandið fullt mjaðar. Þar var drykkur furðu sterkur. Um kveldið var Fjölni fylgt til herbergis í hið næsta loft og hans sveit með honum.

Um nóttina gekk hann út í svalar að leita sér staðar. Var hann svefnær og dauðadrukkinn. En er hann snerist aftur til herbergis þá gekk hann fram eftir svölunum og til annarra loftdura og þar inn, missti þá fótum og féll í mjaðarkerið og týndist þar.

Svo segir Þjóðólfur hinn hvinverski:

Varð framgengt,
þar er Fróði bjó,
feigðarorð,
er að Fjölni kom,
og sikling
svigðis geira
vogr vindlaus
um viða skyldi.