Heimskringla/Ynglinga saga/12
Sveigðir tók ríki eftir föður sinn. Hann strengdi þess heit að leita Goðheims og Óðins hins gamla. Hann fór með tólfta mann víða um heiminn. Hann kom út í Tyrkland og í Svíþjóð hina miklu og hitti þar marga frændur sína og var í þeirri för fimm vetur. Þá kom hann aftur til Svíþjóðar. Dvaldist hann þá enn heima um hríð. Hann hafði fengið konu þá er Vana hét út í Vanaheimi. Var þeirra sonur Vanlandi.
Sveigðir fór enn að leita Goðheims. Og í austanverðri Svíþjóð heitir bær mikill að Steini. Þar er steinn svo mikill sem stórt hús. Um kveldið eftir sólarfall þá er Sveigðir gekk frá drykkju til svefnbúrs sá hann til steinsins að dvergur sat undir steininum. Sveigðir og hans menn voru mjög drukknir og runnu til steinsins. Dvergurinn stóð í durum og kallaði á Sveigði, bað hann þar inn ganga ef hann vildi Óðin hitta. Sveigðir hljóp í steininn en steinninn laukst þegar aftur og kom Sveigðir aldrei út.
Svo segir Þjóðólfur hinn hvinverski:
- En dagskjarr
- Durnis niðja
- salvörðuðr
- Sveigði vélti,
- þá er í stein
- hinn stórgeði
- Dulsa konr
- eftir dvergi hljóp,
- og salbjartr
- þeirra Sökmímis
- jötunbyggðr
- við jöfri gein.