Heimskringla/Ynglinga saga/17

Heimskringla - Ynglinga saga
Höfundur: Snorri Sturluson
17. Dauði Dyggva

Dyggvi hét sonur hans er þar næst réð löndum og er frá honum ekki sagt annað en hann varð sóttdauður.

Svo segir Þjóðólfur:

Kveðkat eg dul,
nema Dyggva hrör
glitnis Gná
að gamni hefr,
því að jódís
úlfs og Narfa
konungmann
kjósa skyldi,
og allvald
Yngva þjóðar
Loka mær
um leikinn hefr.

Móðir Dyggva var Drótt, dóttir Danps konungs, sonar Rígs er fyrstur var konungur kallaður á danska tungu. Hans áttmenn höfðu ávallt síðan konungsnafn fyrir hið æðsta tignarnafn. Dyggvi var fyrst konungur kallaður sinna ættmanna en áður voru þeir drottnar kallaðir en konur þeirra drottningar en drótt hirðsveitin. En Yngvi eða Ynguni var kallaður hver þeirra ættmanna alla ævi en Ynglingar allir saman.

Drótt drottning var systir Dans konungs hins mikilláta er Danmörk er við kennd.