Heimskringla/Ynglinga saga/23
Jörundur og Eiríkur voru synir Yngva Alrekssonar. Þeir lágu úti á herskipum þessa hríð alla og voru hermenn miklir. Á einu sumri herjuðu þeir í Danmörk og þá hittu þeir Guðlaug Háleygjakonung og áttu við hann orustu og lauk svo að skip Guðlaugs var hroðið en hann varð handtekinn. Þeir fluttu hann til lands á Straumeyjarnes og hengdu hann þar. Urpu menn hans þar haug eftir hann.
Svo segir Eyvindur skáldaspillir:
- En Guðlaugr
- grimman tamdi
- við ofrkapp
- austrkonunga
- Sigars jó,
- er synir Yngva
- menglötuð
- við meið reiddu.
- Og náreiðr
- á nesi drúpir
- vingameiðr,
- þar er víkur deilir,
- þar er fjölkunnt
- um fylkis hreyr
- steini merkt,
- Straumeyjarnes.
Eiríkur og Jörundur bræður urðu af verki þessu frægir mjög. Þóttust þeir miklu meiri menn en áður. Þeir spurðu að Haki konungur í Svíþjóð hafði sent frá sér kappa sína. Þá halda þeir til Svíþjóðar og draga síðan her að sér.
En er Svíar spyrja að Ynglingar eru þar komnir þá drífur ógrynni liðs til þeirra. Síðan leggja þeir í Löginn upp og halda til Uppsala á hendur Haka konungi en hann fer í móti þeim á Fýrisvöllu og hafði lið miklu minna. Varð þar mikil orusta. Gekk Haki konungur fram svo hart að hann felldi alla þá er honum voru næstir og að lyktum felldi hann Eirík konung og hjó niður merki þeirra bræðra. Þá flýði Jörundur konungur til skipa og allt lið hans.
Haki konungur fékk svo stór sár að hann sá að hans lífdagar mundu eigi langir verða. Þá lét hann taka skeið er hann átti og lét hlaða dauðum mönnum og vopnum, lét þá flytja út til hafs og leggja stýri í lag og draga upp segl en leggja eld í tyrvið og gera bál á skipinu. Veður stóð af landi. Haki var þá að kominn dauða eða dauður er hann var lagiður á bálið. Sigldi skipið síðan logandi út í haf og var þetta allfrægt lengi síðan.