Heimskringla/Ynglinga saga/24

Heimskringla - Ynglinga saga
Höfundur: Snorri Sturluson
24. Dauði Jörundar

Jörundur sonur Yngva konungs var konungur að Uppsölum. Hann réð þá löndum og var oftlega á sumrum í hernaði. Á einhverju sumri fór hann með her sinn til Danmerkur. Hann herjaði um Jótland og fór um haustið inn í Limafjörð og herjaði þar. Hann lá liði sínu í Oddasundi.

Þá kom þar með her mikinn Gýlaugur Háleygjakonungur, sonur Guðlaugs er fyrr var getið. Hann leggur til orustu við Jörund en er landsmenn urðu þess varir drífa þeir til öllum áttum bæði með stórum skipum og smám. Verður þá Jörundur ofurliði borinn og hroðið skip hans. Hljóp hann þá á sund og var handtekinn og leiddur á land upp. Lét þá Gýlaugur konungur reisa gálga, leiðir hann Jörund þar til og lætur hengja hann. Lýkur svo hans ævi.

Svo segir Þjóðólfur:

Varð Jörundr,
hinn er endr um dó,
lífs um lattr
í Limafirði,
þá er hábrjóstr
hörva sleipnir
bana Guðlaugs
um bera skyldi
og Hagbarðs
hersa valdi
höðnu leif
að hálsi gekk.