Heimskringla/Ynglinga saga/35

Heimskringla - Ynglinga saga
Höfundur: Snorri Sturluson
35. Dauði Önundar

Önundur konungur fór milli búa sinna á einu hausti með hirð sína og fór þangað sem kallað er Himinheiður. Það eru fjalldalir nokkurir þröngvir en há fjöll tveim megin. Þá var mikið regn en áður hafði snæ lagt á fjöllin. Þá hljóp ofan skriða mikil með grjóti og leiri. Þar varð fyrir Önundur konungur og lið hans. Fær konungur bana og mart lið með honum.

Svo segir Þjóðólfur:

Varð Önundr
Jónakrs bura
harmi heftr
und Himinfjöllum,
og ofvæg
Eistra dólgi
heift hrísungs
að hendi kom,
og sá frömuðr
foldar beinum
Högna hrörs
um horfinn var.