Heimskringla/Ynglinga saga/36

Ingjaldur sonur Önundar konungs var konungur að Uppsölum. Uppsalakonungar voru æðstir konunga í Svíþjóð þá er þar voru margir héraðskonungar. Frá því er Óðinn var höfðingi í Svíþjóð voru einvaldshöfðingjar, þeir er að Uppsölum sátu, um allt Svíaveldi til þess er Agni dó en þá kom ríkið fyrst í bræðraskipti, svo sem fyrr er ritið, en síðan dreifðist ríki og konungdómur í ættir, svo sem þær greindust, en sumir konungar ruddu marklönd stór og byggðu þar og jóku þannug ríki sitt. En þá er Ingjaldur tók ríkið og konungdóm voru margir héraðskonungar sem fyrr er ritið.

Ingjaldur konungur lét búa veislu mikla að Uppsölum og ætlaði að erfa Önund konung föður sinn. Hann lét búa sal einn, engum mun minna eða óveglegra en Uppsalur var, er hann kallaði sjö konunga sal. Þar voru í ger sjö hásæti. Ingjaldur konungur sendi menn um alla Svíþjóð og bauð til sín konungum og jörlum og öðrum merkismönnum. Til þess erfis kom Algautur konungur, mágur Ingjalds, og Yngvar konungur af Fjaðryndalandi og synir hans tveir, Agnar og Álfur, Sporsnjallur konungur af Næríki, Sigverkur konungur af Áttundalandi. Granmar konungur af Suðurmannalandi var eigi kominn. Þar var sex konungum skipað í hinn nýja sal. Var þá eitt hásæti autt, það er Ingjaldur konungur hafði búa látið. Öllu liði því er til var komið var skipað í hinn nýja sal. Ingjaldur konungur hafði skipað hirð sinni og öllu liði sínu í Uppsal.

Það var siðvenja í þann tíma, þar er erfi skyldi gera eftir konunga eða jarla, þá skyldi sá er gerði og til arfs skyldi leiða sitja á skörinni fyrir hásætinu allt þar til er inn væri borið full það er kallað var bragafull. Skyldi sá þá standa upp í móti bragafulli og strengja heit, drekka af fullið síðan. Síðan skyldi hann leiða í hásæti það sem átti faðir hans. Var hann þá kominn til arfs alls eftir hann.

Nú var svo hér gert að þá er bragafull kom inn stóð upp Ingjaldur konungur og tók við einu miklu dýrshorni, strengdi hann þá heit að hann skyldi auka ríki sitt hálfu í hverja höfuðátt eða deyja ella, drakk af síðan af horninu.

Og er menn voru drukknir um kveldið þá mælti Ingjaldur konungur til Fólkviðar og Hulviðar sona Svipdags að þeir skyldu vopnast og lið þeirra sem ætlað var um kveldið. Þeir gengu út og til hins nýja sals, báru þar eld að og því næst tók salurinn að loga og brunnu þar inni sex konungar og lið þeirra allt og þeir er út leituðu, þá voru skjótt drepnir.

Eftir þetta lagði Ingjaldur konungur undir sig öll þessi ríki er konungar höfðu átt og tók skatta af.