Heimskringla/Ynglinga saga/46

Heimskringla - Ynglinga saga
Höfundur: Snorri Sturluson
46. Dauði Eysteins konungs

Eysteinn sonur Hálfdanar hvítbeins er konungur var eftir hann á Raumaríki og á Vestfold, hann átti Hildi dóttur Eiríks Agnarssonar er konungur var á Vestfold. Agnar faðir Eiríks var sonur Sigtryggs konungs af Vindli. Eiríkur konungur átti engan son. Hann dó þá er Hálfdan konungur hvítbeinn lifði. Tóku þeir feðgar Hálfdan og Eysteinn þá undir sig alla Vestfold. Réð Eysteinn Vestfold meðan hann lifði.

Þá var sá konungur á Vörnu er Skjöldur hét. Hann var allmjög fjölkunnigur. Eysteinn konungur fór með herskip nokkur yfir á Vörnu og herjaði þar, tók slíkt er fyrir varð, klæði og aðra gripi og gögn búanda og hjuggu strandhögg, fóru í brott síðan.

Skjöldur konungur kom til strandar með her sinn. Var Eysteinn konungur þá í brottu og kominn yfir fjörðinn og sá Skjöldur segl þeirra. Þá tók hann möttul sinn og veifði og blés við. Þá er þeir sigldu inn um Jarlsey sat Eysteinn konungur við stýri. Skip annað sigldi nær þeim. Báruskot nokkuð var í. Laust beitiásinn af öðru skipi konung fyrir borð. Það var hans bani. Menn hans náðu líkinu. Var það flutt inn á Borró og orpinn haugur eftir á röðinni út við sjá við Vöðlu.

Svo segir Þjóðólfur:

En Eysteinn
fyr ási fór
til Býleists
bróður meyjar,
og nú liggr
und lagar beinum
rekks löðuðr
á raðar broddi,
þar er élkaldr
hjá jöfur gauskum
Vöðlu straumr
að vogi kemr.